139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

kynning nýs Icesave-samnings.

[10:37]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Þetta minnir mig dálítið á það þegar við vorum hér fyrstu dagana í júní í fyrra að spyrja hvort von væri á nýjum Icesave-samningi og orð hæstv. fjármálaráðherra þá. Þá voru engar líkur til þess að svo yrði. Skömmu síðar var hann hins vegar kominn fyrir alþjóð og urðu menn nokkuð undrandi við það, svo ekki sé meira sagt. Ég vona svo sannarlega að það sé ekki nokkuð sem við þurfum að upplifa núna og ég vona líka að það sé ekki ætlun hæstv. fjármálaráðherra ríkisstjórnarinnar að koma með Icesave aftur inn í þingið, núna ofan í fjárlagagerð, og reyna einhvern veginn að keyra slíkt mál í gegn fyrir jólin.

Vegna fjárlagagerðarinnar fram undan hlýt ég að draga þá ályktun að ekki sé ætlunin að ganga frá Icesave-samningum núna fyrir áramót. Það er ekki gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að slíkur samningur sé gerður. Það verður auðvitað að fá einhvern botn í það á hvaða vegferð þetta mál er. (Forseti hringir.) Jafnvel þótt þetta hafi farið af stað í öndverðu (Forseti hringir.) milli formanna stjórnmálaflokkanna eru það þingmenn á Alþingi, hver og einn, sem þurfa að taka afstöðu til þess hvernig á þessum málum er haldið. Það eru þingmenn í þessum sal sem taka (Forseti hringir.) endanlega ákvörðun um það hvort Icesave skuli samþykkt.