139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

kynning nýs Icesave-samnings.

[10:39]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Bara til að rifja það upp fór þetta ferli þannig af stað að í janúarmánuði funduðu forustumenn stjórnmálaflokkanna í landinu stíft um þá stöðu sem upp var komin. Forustumenn stjórnarandstöðunnar buðu upp á það að reyna að mynda þverpólitíska samstöðu um að leita nýrra lausna í málinu. Það tókst að fá Hollendinga og Breta til að fallast á sameiginlegan fund í Haag í Hollandi upp úr 20. janúar þar sem ég og starfsbræður mínir í Bretlandi og Hollandi funduðum. Með mér á fundinum voru hv. þm. Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. (Gripið fram í.) Upp úr því lagði þetta ferli af stað og samninganefnd var skipuð í fullkominni sátt. Formaður nefndarinnar var að tillögu stjórnarandstöðunnar og stjórnarandstaðan á sinn sérstaka fulltrúa í samninganefndinni. Þannig lagði þetta af stað, þannig hefur þetta haldið áfram og á þessum grunni stendur þetta enn þann dag í dag.

Ég held að það sé best að fara ekki fram úr sér í þessum efnum og tala sig ekki upp í tilfinningahita um eitthvað sem ekki liggur fyrir, (Forseti hringir.) hvað þá hvernig með málið verður farið ef og þegar til kemur. (Gripið fram í.)