139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

flutningur Landhelgisgæslunnar og Almannavarna.

[10:48]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég sendi inn í morgun samstofna fyrirspurn og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannesson sem laut að almannavörnum og Landhelgisgæslunni og vildi grípa niður í það sem hæstv. ráðherra nefndi áðan, að þegar ríkisstjórnin hélt fund á dögunum í Reykjanesbæ var því lýst yfir á 14 atriða lista að dómsmála- og mannréttindaráðherra væri falið að skoða vandlega kosti þess að flytja starfsemi Landhelgisgæslunnar á Miðnesheiði á Suðurnesjum og framkvæmd verði hagkvæmnisathugun á þeim kostum.

Nú hefur framtíð Gæslunnar og flutningur hennar suður eftir verið í umræðunni í nokkur ár og það á sér talsverðan aðdraganda. Það er breiður pólitískur stuðningur og vilji á bak við flutning Gæslunnar suður eftir. Forstjóri Landhelgisgæslunnar hefur tekið mjög jákvætt í þetta. Þarna er um að ræða mikið húsnæði og hagkvæmt. Allir hafa tekið mjög vel í þetta. Þingmannahópur sem starfaði hér fyrir nokkrum missirum skoðaði m.a. framtíð Gæslunnar og flutning suður eftir og komst að jákvæðu áliti þar um. Ég skora á hæstv. ráðherra að hraða þessu máli mjög. Ekki þarf að eyða miklum tíma í það af því að búið er að vinna mikla forvinnu í þessu máli. Ég vildi spyrja sérstaklega að því hvort rætt hafi verið í þessu ferli um að færa alla samræmingarstöð Almannavarna suður eftir úr Skógarhlíðinni þar sem bent hefur verið á að flóttaleiðir, aðkoma til og frá Skógarhlíð að Almannavörnum þar sé mjög óheppileg og væri mjög heppilegt að staðsetja þetta á Miðnesheiðinni í Ásbrú, í því húsnæði sem þar er um að ræða. Þar gæti verið um að ræða mjög mikið og stórt mál, bæði í skilningi almannavarna og auðvitað í tilliti atvinnumála suður frá þar sem svo sárlega vantar öflug verkefni sem allra fyrst. Því vildi ég brýna hæstv. ráðherra til að flýta þessu máli sem kostur er, (Forseti hringir.) af því að komið hefur fram að það er fyrirstaða við þetta meðal embættismanna, að taka af skarið og veita þessu pólitíska forustu og hefja flutning á Gæslunni suður eftir.