139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

flutningur Landhelgisgæslunnar og Almannavarna.

[10:50]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég fagna þeim orðum hæstv. ráðherra að það komi til greina og verði tekið inn í þessa athugun að færa alla samræmingarstöð Almannavarna úr Skógarhlíðinni suður á Miðnesheiðina í Ásbrúna, í það mikla og góða húsnæði sem þar er til staðar. Þar væri þá að finna samræmda starfsemi þess sem eftir stendur af Varnarmálastofnun, Landhelgisgæslunnar og annarrar almannavarnastarfsemi í landinu.

Það væri mjög jákvætt ef hæstv. ráðherra kæmi þessu sem allra fyrst í formlegan farveg þannig að þeir sem að þessu máli vinna sjái fram á ferilinn í málinu. Eins og ég ítrekaði áðan er breiður pólitískur stuðningur, og hefur komið fram í umræðum síðustu ára, við það að flytja þessa starfsemi á þetta svæði, sérstaklega út frá hagsmunum almannavarnanna sjálfra, þar sem samræmingarstöðinni væri mjög vel fyrir komið.