139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

mannvirki.

78. mál
[11:09]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við greiðum hér atkvæði um frumvarp til mannvirkjalaga og síðar um breytingu á brunavarnalögum. Við erum komin á þennan stað í þessu lagabreytingaferli sem hófst fyrir átta árum og lýkur vonandi með lagasetningu í næstu viku. Ekki er þó ástæða til að hafa mörg orð um þetta að sinni því að umhverfisnefnd hyggst taka málið aftur fyrir milli 2. og 3. umr. og fjalla þar um þrjú álitamál, um hvar á að vera opinbert markaðseftirlit með rafföngum, um brunavarnir á flugvöllum og um stjórn á vettvangi við slys og óhöpp, og við köllum þess vegna aftur þær tillögur okkar, breytingartillögur nefndarinnar, sem að þessum þáttum víkja. Ég tel að það sé nokkuð merkur áfangi í miklu starfi sem nefndin hefur unnið með hjálparliði sínu í stjórnsýslunni (Forseti hringir.) og víða um land að vera þó komin á þennan stað.