139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:20]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Það er alveg rétt að hagvöxtur virðist vera að taka við sér að einhverju leyti en forsendurnar sem liggja til grundvallar fjárlagafrumvarpinu byggja að mínu mati á of veikum grunni. Þetta er í rauninni sama umræða og við höfum tekið hér í alllangan tíma. Því miður eru að koma fram mælingar sem staðfesta þau varnaðarorð sem við höfum haft uppi. Hér er vitnað til bjartsýnni spár Seðlabankans en annarra spáaðila. Þá er rétt að geta þess að þegar Seðlabankinn kynnti sína spá um u.þ.b. 2% hagvöxt á árinu 2011 reiknaði hann með að það væri fremur of mikil bjartsýni en raunsætt mat, svo því sé komið til skila við umræðuna hér.

Ég geri mér fullljóst að þetta er alltaf ákveðinn vegur sem þarf að þræða en ég vildi heyra hvort hv. formaður telur að áform um (Forseti hringir.) skattbreytingar og hækkanir og álögur verði til þess að vinna gegn þessari þróun eða ekki. Það er sérstaklega það atriði sem ég spyr um.