139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir ræðuna. Ég vil spyrja hana í fyrsta lagi í fyrra andsvari mínu sérstaklega um það sem beinist að kynjaðri hagstjórn og svonefndum félagsauði í fjárlagafrumvarpinu öllu, en vinstri flokkarnir hafa sérstaklega lagt upp úr því að beita eigi aðferðum kynjaðrar hagstjórnar í öllu fjárlagaferlinu, það stendur í stefnuyfirlýsingunni. Síðan er lögð mikil áhersla á að taka eigi tillit til þess hvernig tillögurnar hafa áhrif á byggðir landsins. Telur hv. þingmaður fjárlagafrumvarpið eins og það liggur fyrir gott dæmi um það hvernig ná á markmiðum kynjaðrar hagstjórnar? Eins og við vitum vel bitnaði niðurskurðurinn í tillögunum sem birtust, sérstaklega í heilbrigðismálum og ekki síst á landsbyggðinni, ég get tekið St. Jósefsspítala sem dæmi, um 80% á konum. Er fjárlagafrumvarpið (Forseti hringir.) dagsett í dag gott dæmi um hina frábæru kynjuðu hagstjórn?