139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að ná markmiðum efnahagsáætlunarinnar var alveg ljóst að við þyrftum að fækka starfsmönnum hjá ríkinu, (Gripið fram í: Konum.) það var algjörlega ljóst. Það kemur niður á konum, það kemur líka niður á körlum. Karlmenn hafa misst vinnu hjá verktakafyrirtækjum o.s.frv. Þetta er það sem við þekkjum. Hv. fjárlaganefnd hefur beðið Byggðastofnun um að hafa umsjón með mati á efnahagsáætluninni og þeim aðgerðum sem birtast í fjárlögum á árunum 2009, 2010 og 2011 einmitt til þess að meta áhrif, samfélagslegan kostnað og ef til þess kæmi samfélagslegan hagnað af þessum aðgerðum.