139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:30]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna orðum hv. formanns fjárlaganefndar um að það eigi að fara fram umræða og úttekt á því sem á sér stað í heilbrigðiskerfinu. Ég hefði reyndar talið að sú úttekt og umræða hefði átt að fara fram áður en farið var í þessar breytingar. Ég harma það ekki að snúa eigi við frá þeirri stefnu um gjörbyltingu á heilbrigðiskerfinu sem boðuð var í heilbrigðiskerfinu í haust. Ég get ekki betur séð en að ná eigi til að mynda þessari 40% hagræðingu á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga á þremur árum í stað eins. Ég fagna því samt að það virðist vera vilji til að endurskoða stefnuna og hugsanlega verður hægt að taka þau skref til baka sem við erum að stíga nú, 12% hagræðingarkrafa er gríðarlega mikil. En ef það er vilji hjá meiri hlutanum að taka þessa umræðu snemma árs 2011 fagna ég því.