139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er það þannig að ramminn er gefinn út fyrir tvö ár og viðmiðin fyrir næstu tvö ár sem er síðan endurskoðað. En væntanlega er hv. þingmaður að tala um að rammi sé fyrir hvern málaflokk fyrir sig og hverja stofnun fyrir sig. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að gera áætlun fram í tímann, bæði fyrir ráðuneytin til að vinna eftir og líka til að stofnanir geti betur hugsað til framtíðar, þær hafi ljósari ramma til framtíðar. Þetta krefst allt saman aukins aga og algjörlega breyttra vinnubragða. Við erum að feta okkur í þá átt núna en við þurfum að ganga enn lengra.