139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég var nú ekki að segja að ég hefði gert tillögu sjálfstæðismanna að trúarjátningu minni þó að ég kæmi þeim upplýsingum á framfæri að ég hefði komið og sýnt þeim þá virðingu að ræða um þær sem sjálfsagt er.

Vissar staðreyndir þurfum við ekki að deila um lengur. Samkvæmt efnahagsáætluninni á fyrri hluta árs 2009 var gert ráð fyrir að hallinn á því ári yrði um 175 milljarðar kr., hann endaði í 140 milljörðum samkvæmt ríkisreikningi, það er þá niðurstaða skulum við segja. Gert var ráð fyrir því í sömu efnahagsáætlun að hallinn á þessu ári yrði 128 milljarðar. Var ekki verið að loka hér fjáraukalögum þar sem hann er 85, að frádregnum sölutekjum? Gert var ráð fyrir því í efnahagsáætluninni að hallinn á árinu 2011 yrði 68 milljarðar samkvæmt breytingartillögum, nú við 2. umr. fjárlagafrumvarps fyrir það ár stendur hann í 32 milljörðum. Svona er þetta í tölum talið eins og blasir við okkur núna á borðinu. Að sjálfsögðu var efnahagsáætlunin sett fram í talsverðri óvissu. Og að sjálfsögðu er gott að þetta reyndist ekki eins dökkt og þá var spáð, við gleðjumst öll yfir því sem og því að við hljótum að gleðjast yfir vaxtalækkun Seðlabankans í morgun. Ég held að menn hljóti að sjá að við erum á réttri leið í þeim efnum þegar skilyrðin eru að lagast eins og þar er sannanlega á ferðinni, ég hef ekki séð nokkurn mann sem ekki hefur glaðst yfir því í viðbrögðum í fjölmiðlum fram eftir degi, þannig að þetta er til staðar.

Hitt er alveg rétt að við höfum öll viljað sjá batann verða kraftmeiri. Ég er ekki í neinum vafa um það t.d. að það heldur aftur af honum hvað atvinnulífið og út af fyrir sig heimilin eru skuldsett og hversu hægt hefur gengið að vinna úr þeim málum. Nú eru stór plön uppi um að taka verulega til í þeim skuldum. Væntanlega verða afskrifaðir hátt á annað hundrað milljarðar af skuldum heimilanna á næstu mánuðum í gegnum þær aðgerðir sem samkomulag náðist um um daginn og í gegnum endurreikning gjaldeyrislána. Það er að fara af stað stórt átak í að endurskipuleggja skuldir lítilla og meðalstórra (Forseti hringir.) fyrirtækja — 6–8 þús. fyrirtækja í þeim flokki. Það mun líka hafa verulega jákvæð hagvaxtar- og eftirspurnaráhrif þegar þær aðgerðir allar eru gengnar í gegn. Þannig að við gætum líka átt inni í auknum hagvexti (Forseti hringir.) og meiri krafti gangi þessar aðgerðir vel.