139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:47]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Áður en ég hef ræðu mína vil ég nefna að það vakti athygli mína rétt áðan í svari hæstv. fjármálaráðherra að til stæði að skuldajafna hjá á bilinu 6–8 þús. fyrirtækjum, ef ég heyrði rétt. (Gripið fram í.) Mörg fyrirtæki. (Fjmrh.: Vinna úr skuldum lítilla og meðalstórra fyrirtækja.) Vinna úr skuldum lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Ég lýsi ánægju með að sú vinna er farin fram en ég tel að þingið þyrfti að fá kynningu á því á hvaða vegferð ríkisstjórnin er hvað þetta varðar. Það hefur a.m.k. alveg farið fram hjá mér, ég hef verið að grennslast aðeins fyrir um það hvað ríkisstjórnin ætlast fyrir og ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til að koma og útskýra þetta í ræðu ef hann hefur tök á seinna í dag.

Hér er til umræðu fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2011. Ég mun í ræðu minni fara yfir tillögur okkar framsóknarmanna sem byggjast á hófsamlegri og ábyrgri miðjustefnu. Við útfærum leiðir til að auka tekjur ríkissjóðs, örva hagvöxt og koma hjólum atvinnulífsins af stað. Þær tillögur sem ríkisstjórnin hefur lagt fram byggjast á hugmyndafræði vinstri flokka sem hefur því miður leitt af sér minni hagvöxt, rýrari tekjur og kólnun hagkerfisins. Hvað útgjaldahliðina varðar mun 2. minni hluti leitast við að vernda velferðarkerfið. Ekki má ganga lengra í boðuðum niðurskurði gagnvart heilbrigðisþjónustu landsmanna án þess að skaða kerfið varanlega. Ég hafna þeim tillögum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram um að gjörbylta heilbrigðiskerfinu og mun ekki taka undir tillögur hægri manna um aukinn niðurskurð í þá veru. Þá verður í tillögunum komið til móts við þá tekjulægstu í þjóðfélaginu með hækkun persónuafsláttar.

Svo ég fari örstutt yfir forsendur frumvarpsins þá byggði það eins og menn muna á forsendum sem almennt var ljóst að mundu ekki standast. Gert var ráð fyrir 3,2% hagvexti á árinu 2011 í þjóðhagsspá Hagstofunnar frá því í júní. Þá þegar lá fyrir að ríkisstjórninni hafði mistekist að ræsa vélar atvinnulífsins og að framkvæmdum við álver í Helguvík mundi seinka, en sú framkvæmd var inni í stöðugleikasáttmálanum og þess vegna var hún tekin til greina í þjóðhagsspánni. Þrátt fyrir að gagngerar breytingar hefðu átt sér stað innan stjórnkerfisins áður en frumvarpið var lagt fram byggist það á gamla skipulaginu. Það lá því fyrir við 1. umr. um frumvarpið að forsendur og upplegg þess mundu taka miklum stakkaskiptum í þinglegri meðferð frumvarpsins, enda hefur það líka gengið eftir. Í frumvarpinu var m.a. boðuð gagnger breyting á heilbrigðiskerfi landsins. Aðhaldsráðstafanir námu samtals um 4,7% af heildarveltu ráðuneytisins en aðhaldsmarkmið í sjúkratryggingum er samkvæmt frumvarpinu 3%. Áttu heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni að taka á sig stærsta hluta niðurskurðarins. Fyrir lá að ef boðaður niðurskurður yrði að veruleika mundi þjónusta við íbúa í hinum dreifðu byggðum landsins í heilbrigðismálum skerðast til mikilla muna og sjúkrahúsastarfsemi leggjast víða af. Í mótmælaskyni var boðað til borgarafunda víðs vegar um landið þar sem boðaður niðurskurður var gagnrýndur harkalega. [Háreysti á þingpöllum.](Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Ég fer fram á þögn á þingpöllum. [Háreysti á þingpöllum.] ... fari að þingsköpum. ) [Háreysti á þingpöllum.]

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður ræðumann að halda áfram ræðu sinni.) [Háreysti á þingpöllum.]

(Forseti (ÁRJ): Þögn á þingpöllum. [Háreysti á þingpöllum.] Forseti biður ræðumann að halda áfram ræðu sinni.) [Háreysti á þingpöllum.]

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda áfram með að ræða boðaðan niðurskurð í heilbrigðismálum. [Háreysti á þingpöllum.] Ég spyr hæstv. forseta hvort það sé ekki [Háreysti á þingpöllum.] ráð að fresta fundi örstutt, en ég get haldið áfram með ræðuna, það er alveg sjálfsagt mál.

Aðhaldsráðstafanir námu samtals um 4,7% af heildarveltu ráðuneytisins en aðhaldsmarkmið í sjúkratryggingum [Háreysti á þingpöllum.] er samkvæmt frumvarpinu 3%. Ég er að ræða hér gríðarlega mikla skerðingu sem átti sér stað á heilbrigðiskerfi allra landsmanna [Háreysti á þingpöllum.] og verð að fá fara yfir það mál hér …

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður ræðumann um að fresta ræðu sinni. Þessum fundi er frestað um 20 mínútur.)