139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:18]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að hv. þingmaður gleðjist yfir því að farið verði í Búðarhálsvirkjun. Aftur á móti svaraði hann því ekki hvar hann ætlaði að ná í orku fyrir Helguvík. Það er ekki Vinstri hreyfingin – grænt framboð sem stendur í vegi fyrir að finna orkuna. Hv. þingmaður og aðrir verða að svara því hvar hún er og hvort hún sé aðgengileg og hvort, samkvæmt fyrri hugmyndum, sé verið að ganga of nærri orkulindunum á Reykjanesinu. Þetta er ekki bara spurning um hvað maður vill, þetta er spurning um hvort það sé hægt og hvort þetta sé ráðlegt. Ég vil að hann svari því. Og hvort í efnahagshruninu hér og við erum ekki búin að ná okkur út úr, hvort hann telji að fjárfestar hafi legið á lausu. Hvort hann telji að möguleikar á lánum hafi legið á lausu, hvort það hafi verið auðvelt fyrir ríkissjóð eða Landsvirkjun að fá lán fyrir hugsanlegum virkjunum eða stórframkvæmdum sem hefðu ekki aðgengi að orku?

Það er mjög auðvelt að slá fram væntingum, kröfum og hugmyndum um hvað sé hægt að gera en þegar maður stendur svo frammi fyrir þeim staðreyndum að orkan sé ekki nægileg, að fjármagnið liggi ekki á lausu, að fjárfestar séu ekki tilbúnir til að koma, þá verða menn bara að horfast í augu við að lífið er stundum ekki eins og maður vildi að það væri.