139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:19]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig vel á því að lífið er ekki alltaf eins og maður vill hafa það og að oft er auðveldara um að tala en í að komast.

Ég held að því hafi verið kastað ranglega fram í umræðunni að orkan sé ekki nægileg í þessi tvö verkefni, Helguvík og Bakka. Ég held að það sé röng fullyrðing eins og hefur komið fram varðandi Bakka á Húsavík að þar sé ekki nægileg orka til staðar. Vinnuhópur skilaði skýrslu um daginn og gaf sú skýrsla fyllilega í ljós að þar væri nægileg orka til að fara af stað með 240 þús. tonna álver. Það veit hv. þingmaður mætavel.

Hvað varðar fjárfestingargetu Landsvirkjunar er rétt að Landsvirkjun þurfti að endurfjármagna lán sem hún hafði tekið. En af hverju voru orkuverkefnin ekki farin af stað eins og t.d. Búðarhálsvirkjun? Það liggur fyrir að búið er að ráðstafa hluta af orkunni sem kemur frá Hellisheiði í Helguvík frá Orkuveitu Reykjavíkur. Neðri hluti Þjórsár tefst ekki út af því að það vanti einhverja fjárfestingaraðila utan úr heimi. Þetta minnir mig á Icesave-umræðuna þegar sagt var að ekki væri hægt að ráðast í orkufrek verkefni af því ekki væri hægt að fjármagna á einhvern hátt. Hvaða þýðingu hafði það fyrir verkefnið á Bakka við Húsavík, sem ég tel að sé komið lengst, að það var sett í sameiginlegt umhverfismat? Tafir í tvö ár. Nóg um það. Okkur greinir á um þetta eins og kannski annað.

Mig langar til að segja að það var rétt að gerð varð 4,7% hagræðingarkrafa á heilbrigðiskerfi landsins en það þýddi ekki þar með að gjörbylta þyrfti kerfinu eins og ég rakti mjög ítarlega (Forseti hringir.) í ræðu minni. Okkur greinir á um þetta, frú forseti, en ég vonast til að við komum til með að eiga áfram gott samstarf í fjárlaganefnd.