139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:41]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er svona eins og með jólasveinana, ég kem hér upp einu sinni á ári til að leiðrétta eða gagnrýna það sem hefur komið fram í máli hv. þm. Þórs Saaris um fjárlagafrumvarpið. Ég vil taka upp hanskann fyrir þá ágætu jólasveina sem mæta í Dimmuborgir á hverju ári. Þessir ágætismenn mæta þarna og skemmta krökkum og gestum og gangandi og það hefur vakið mikla lukku. Ágætt er að taka það fram líka að ég trúi á jólasveinana og finnst að þeir séu jafnvel að færa sig enn nær almenningi.

Alþingi hefur ákveðið að leggja fjármuni í þetta verkefni. Ég tel það vel vegna þess að við fáum um 200 þús. ferðamenn í Dimmuborgir á hverju ári, jafnvel fleiri. Ef við getum á einhvern hátt liðkað til með litlum verkefnum sem skila tekjum inn í samfélagið á hverjum stað held ég við ættum að gera það.

Húsafriðunarnefnd var nefnd hér líka og að fagaðilar ættu að skipa hana. Ég er sammála þingmanninum um að það er mjög gott fyrirkomulag að fagaðilar meti hverjir eigi að fá styrki til húsafriðunar. Það er þannig að hluta. Ég velti hins vegar fyrir mér hver eigi að ákveða hverjir þessir fagaðilar eru í hinum ýmsu málaflokkum. Á að færa þetta vald til ráðherra? Á ráðherra að handvelja í hverja þeirra? Og ég spyr á móti: Erum við þá ekki að færa völdin til framkvæmdarvaldsins einmitt á þeim tíma þegar við ættum að vera að færa þau til Alþingis?