139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:47]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þykir leitt að þurfa að leiðrétta hv. þingmann. Það er ekki oft sem þarf að leiðrétta hann. Einhver sagði í eyru mín svo seint sem í dag að það eina sem skilur almennt á milli framsóknarmanna og almennrar skynsemi er álverið á Bakka. Hvað varðar húsafriðun fær húsafriðunarnefnd einfaldlega lista sem tekinn er saman af fjárlaganefnd Alþingis og það er sagt við húsafriðunarnefnd: Hér er þessi listi yfir hús sem við höfum áhuga á, getið þið forgangsraðað á þessum lista fyrir okkur? Það er ekki þar með sagt að það sé verið að forgangsraða húsafriðun í öllu landinu. Húsafriðunarnefnd vinnur einfaldlega ekki þannig. Það hús sem ég sjálfur hef haft aðkomu að var mjög illa farið. Húsafriðunarnefnd sagði: Nú þurfum við að forgangsraða. Við skulum veita styrk í viðgerð á þakinu en hitt, þó að brýnt sé, verður að bíða vegna þess að önnur atriði eru meira aðkallandi. Þannig forgangsraða menn faglega þeim fjármunum sem þeir fá og þannig tel ég að það ætti að vera.

Það er ómögulegt fyrir mig sem þingmann að setja mig sjálfur inn í öll þau smáverkefni sem eru úti um allt land. Það er ómögulegt fyrir hvern einasta þingmann. Þetta er hins vegar viðtekin venja á þingi sem ég tel að ætti að breyta. Ég tel að við ættum að treysta okkur til að setja á stofn þær fagstofnanir og slíkt sem þarf til að fylgja eftir ákveðinni stefnumótun. Stefnumótun þarf að fara fram áður en menn úthluta peningum. Við sjáum hvað gerist þegar þessu er snúið á hvolf eins og varð með niðurskurðinn í heilbrigðisstofnununum núna, það var ekki farið eftir neinni stefnumótun heldur var reynt að endurskipuleggja heilbrigðiskerfið um allt land í gegnum fjárlögin. Það er ekki góð lenska og ekki góð vinnuaðferð.

Við tökum saman höndum í fjárlaganefnd fyrir næsta fjárlagaár, söfnum saman öllum þessum safnliðum og látum aðra um að úthluta.