139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:15]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar. Þær snerta mikilvæg málefni í þessum málaflokki. Ég tel að þegar gerð er krafa á Háskóla Íslands, eins og reyndar framhaldsskóla og flestar menntastofnanir sem fjárlögin snerta, að hleypa inn fleiri nemendum en menntastofnanirnar fá greitt fyrir, sýni það okkur í hnotskurn hvert vandamálið er. Við erum ekki að nýta fjármuni til mennta- og fræðslumála með skynsamlegum hætti. Verkefnið á allra næstu mánuðum er að mínu viti að finna leiðir til að tryggja nánara samstarf og helst sameiningu háskólanna í landinu.

Ég sé fyrir mér í framtíðinni að við verðum með tvo lykilskóla, annars vegar Háskóla Íslands og hins vegar Háskólann í Reykjavík. Háskóli Íslands, stór akademískur alhliða háskóli, og síðan Háskólinn í Reykjavík með þrengra svigrúm, þrengra sjónarhorn og tengingu við atvinnulífið í landinu.

Ég held reyndar að menn eigi líka að skoða aukið samstarf milli skólanna. Það er klárlega tvíverknaður í kerfinu núna sem birtist m.a. í því að skólarnir tveir kenna báðir viðskiptafræði og lögfræði. Það er boðið upp á sömu kúrsana í fleiri en einum skóla. Menn eiga ekki að láta rekstrarformið stoppa sig af við að skoða nýjar leiðir til þess að byggja upp háskólasamfélag sem er númer eitt, tvö og þrjú á forsendum nemendanna í landinu en ekki stofnana sem hafa verið reistar í kringum starfið.

Þannig að já, ég er sannarlega sammála að það þarf að sameina háskólana í landinu. Já, ég verð að viðurkenna það að niðurskurðurinn á framlögum til kvikmyndagerðarinnar í fyrra voru mistök, (Forseti hringir.) við höfum tækifæri til að leiðrétta þau núna að einhverju marki.