139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:22]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrirspurnina. Ég tek undir það að ég tel að fjárlaganefnd hafi stigið mikilvægt skref með því að leita eftir úttekt á áhrifum niðurskurðarins á landsbyggðinni. Ég vil henda hugmynd þingmannsins á lofti að e.t.v. sé þörf á sambærilegum rannsóknum varðandi niðurskurðinn sem við horfum á og tengist sérstaklega menntakerfinu í landinu. Við eigum að taka þá umræðu í menntamálanefndinni. Ég lýsi mig reiðubúinn til þess að fara í gegnum það með félögum mínum í nefndinni.

Það er mikilvægt að við áttum okkur á því að engin svið samfélagsins geta verið undanskilin niðurskurði. Við verðum að treysta því. Við verðum að hafa haldgóðar upplýsingar um að ekki sé gengið of langt á sviðum sem eru nauðsynleg til þess að koma samfélaginu aftur á lappirnar, sérstaklega þessa endurreisn. Það er ekki hægt að ofmeta áhrifin sem sterkt menntakerfi hefur fyrir öflugt atvinnulíf í framtíðinni. Mér finnst við stundum vanrækja það að skoða þessi tvö svið í samhengi. Ég tel að óháðar rannsóknir sem fara yfir hvaða áhrif hagræðingarkröfur á framhaldsskólana og háskólana hafi, séu réttlætanlegar við þessar aðstæður.