139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:24]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeim orðum sem komu fram í máli hv. þingmanns. Við tökum umræðuna fyrir fram, þ.e. áður en ráðist verður í hagræðingu í menntakerfinu. Mér heyrist vera samhljómur um það í þingsal að það þurfi að gera breytingar þar á.

Það er annað sem mig langar að spyrja hann þó það sé stuttur tími til svara. Við höfum rætt í fjárlaganefnd að efla Alþingi. Rannsóknarskýrslan og Alþingi hefur ályktað að það eigi að styrkja Alþingi gagnvart framkvæmdarvaldinu. Við höfum rætt það í fjárlaganefnd að færa valdið til fjárlaganefndar að fjárlögin séu búin þar til, að ramminn komi þaðan og framkvæmdin sjálf sé hjá framkvæmdarvaldinu sem liggur í hlutarins eðli. Hann nefndi að fagnefndir ættu að sjá um safnliðina (Forseti hringir.) í framtíðinni. Mig langar þá að spyrja hver eigi í rauninni að skipa í þær fagnefndir.