139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:29]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að spurningarnar eru þess eðlis að þeim verður ekki svarað á tveimur mínútum, varla á tveim klukkutímum eða tveimur dögum. Ég skal gera mitt besta á þessum stutta tíma til að leggja eitthvað inn.

Ég er mikill stuðningsmaður þess að við setjum okkur háleit markmið í menntamálum. Maður er líka brenndur af þeirri reynslu að við setjum okkur markmið, bæði í þeim málaflokki og öðrum sem lítil innstæða er fyrir því það vanti oft skýrar aðgerðaáætlanir um hvernig menn ætla að ná þessum markmiðum, hvort sem þau eru að vera í hópi bestu háskóla í Evrópu, að útrýma fíkniefnum eða önnur markmið sem koma upp í hugann þegar maður lítur til baka.

Mikilvægast af öllu er forgangsröðun eins og þingmaðurinn nefndi. Ég tel að við núverandi aðstæður eigi forgangsröðunin ekki síst að miðast við að efla verk- og tæknimenntun. Þar er mikið verk að vinna. Þar þurfum við bæði að brjótast í gegnum ákveðna fordóma og viðhorf sem hafa leitt til þess að námið er ekki eins eftirsóknarvert í hugum margra nemenda og það þyrfti að vera, en við þurfum líka að láta fjármunina fara á rétta staði. Þess vegna verð ég að játa vonbrigði mín með það í endurskoðun reiknilíkansins frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu að á þessu hausti verður þetta svið fyrir meiri skerðingum en flest önnur. Það finnst mér senda röng skilaboð.

Ég met það hins vegar við mennta- og menningarmálaráðherra að hún hefur lýst því yfir að þetta verði endurskoðað strax á næsta ári. Ég tel mikilvægt að fylgja því fast eftir.

Varðandi einstakar útfærslur verð ég að vísa til umræðu í (Forseti hringir.) menntamálanefnd.