139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:33]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjárlaga ársins 2011 sem verið hefur til umræðu í nefndum Alþingis undanfarna tvo mánuði eða ríflega það. Eins og fram hefur komið hér í dag frá framsögumanni nefndarálits meiri hluta og formanni fjárlaganefndar, hv. þm. Oddnýju Harðardóttur, hefur fjárlaganefnd haldið yfir 30 fundi um fjárlagafrumvarpið frá því það var lagt fram 1. október og auk þess hafa komið fjölmargir gestir á fundi nefndarinnar til að viðra skoðanir sínar og álit á einstökum þáttum og fjárlaganefnd hefur til viðbótar leitað álits margra aðila innan úr stjórnsýslunni sem og utan hennar eftir þörfum hverju sinni.

Það var löngu ljóst að fjárlagagerðin fyrir árið 2011 yrði erfið og erfiðari en áður hafi þekkst hér á landi. Ástæðan er augljós; eftir samdrátt í ríkisútgjöldum frá miðju ári 2009 og síðan aftur á yfirstandandi ári mátti búast við að enn erfiðara yrði að fara inn í áframhaldandi samdrátt á árinu 2011. Að sama skapi var farið í nýja tekjuöflun, bæði árin 2009 og 2010, og ljóst að ekki yrði sótt eins mikið í þá áttina á árinu 2011 og gert hafði verið til þessa, enda munu þær aðgerðir skila sér áfram inn á næsta ár.

Ekki verður undan því vikist að takast á við þann vanda sem blasir við í efnahagsmálum þjóðarinnar hve mikið sem okkur langar til að forða okkur undan því. Ódýrar lausnir eru ekki í boði jafnvel þó að hægt sé að láta hlutina hljóma vel í eyrum einhverra. Þó að hægt sé að tala inn í erfiðleika fólks og inn í það ástand sem er ríkjandi í landinu vegna þess efnahagshruns sem hér varð er það einfaldlega svo að ódýrar lausnir eru ekki í boði. Það verk sem bíður okkar allra, ekki bara stjórnarliða eða ríkisstjórnar, er ekki til vinsælda fallið enda verkið í sjálfu sér hafið yfir vinsældir einstaklinga og miklu stærra en það að við eigum að geta hreykt okkur af því eða vera með það í huga.

Í rauninni má segja að fram til þessa hafi gengið betur að ná utan um rekstur ríkisins en nokkurn óraði fyrir þegar við lögðum af stað í þessa vegferð á síðasta ári. Þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til í því sambandi hafa verið árangursríkari og án mikillar fyrirstöðu í samfélaginu, fyrir utan Alþingi, þær umræður sem hér hafa verið, það hefur ekki verið full samstaða um það sem gert hefur verið innan veggja þessa húss þó svo að árangurinn af þeim verkum blasi við okkur öllum.

Því hefur verið haldið fram og án þess að það sé stutt neinum sérstökum rökum, og reyndar þvert ofan í mat faglegra aðila, að ekki hafi náðst sá árangur í ríkisfjármálum sem stefnt var að og að áætlanir stjórnvalda hafi gengið illa eftir. Fátt er nú fjarri sanni, virðulegi forseti.

Samkvæmt skýrslu fjármálaráðherra, um áætlanir í ríkisfjármálum fyrir árið 2009–2013, sem lögð var fram hér á Alþingi síðastliðið sumar, segir að eitt af meginmarkmiðum við stjórn ríkisfjármála við þær aðstæður sem hafa skapast hér á landi sé að frumjöfnuður verði orðinn jákvæður árið 2011 og heildarjöfnuður jákvæður á árinu 2013, afgangur af rekstri. Ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 2009 og fjárlög ársins 2010 voru miðuð við þetta markmið áætlunarinnar og það frumvarp sem við ræðum hér og frumvarp 2011 gera það sömuleiðis. Nú liggja fyrir haldgóðar upplýsingar um þróun ríkisfjármála á árinu 2009 og útkoman á yfirstandandi ári er fyrirsjáanleg eins og kom m.a. fram í fjáraukalögum sem voru samþykkt hér á Alþingi í gær.

Samkvæmt því sem nú liggur fyrir eftir árið 2009 og það sem blasir nú við okkur í árslok 2010, ásamt þeim gögnum og áætlunum sem fjárlagafrumvarp næsta árs byggist á, er fátt sem bendir til annars en að markmið áætlunar um jöfnuð í ríkisfjármálum náist fram. Mismunur á þeirri stöðu sem við vorum í þegar lagt var upp með áætlanir um jöfnuð í ríkisfjármálum og til dagsins í dag eru um 100 milljarðar eins og hefur komið fram hér fyrr í dag og sem kemur m.a. fram í lægri skuldastöðu og þar af leiðandi minni vaxtagreiðslu ríkisins.

Allar fullyrðingar um lausatök í ríkisfjármálum eru því staðleysa og engin haldgóð rök fyrir málflutningi af því tagi. Reynslan sýnir að áætlun um ríkisfjármál hefur verið fylgt vel eftir og þau markmið sem sett voru hafa náðst og vel það. Halli ársins 2009 var minni en áætlað hafði verið sem nemur um 2,8% af vergri landsframleiðslu. Hallinn í ár stefnir í að vera enn minni en gert var ráð fyrir sem munar um 3,4% af vergri landsframleiðslu og halli á næsta ári stefnir í að vera enn minni en gert var ráð fyrir, m.a. í áætlunum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem við erum í samstarfi við í þeirri efnahagsáætlun sem unnið er eftir. Árangurinn skýrist af því að tekist hefur að lækka ríkisútgjöld eins og áformað var. Ráðstafanir sem gripið var til við tekjuöflun hafa gengið eftir og ýmsar aðstæður í umhverfinu hafa verið okkur hliðhollar sem betur fer — það er nú eins gott að eitthvað leggist með þessari þjóð í þeim hremmingum sem yfir hana hafa gengið á undanförnum árum, það er ástæðulaust að gera lítið úr því, en sem betur fer hafa ýmsar ytri aðstæður hjálpað til á meðan annað hefur kannski ekki verið okkur eins hliðhollt. Ekkert bendir því til annars en að svo verði áfram, þ.e. að við séum á réttri leið hvað ríkisfjármálin varðar ef áfram verður sú stjórn á fjármálum ríkisins sem hefur verið síðustu tvö árin. Það er auðvitað grundvallaratriði að við höldum okkar striki og gefum ekki eftir eins og þó er kallað eftir að gert sé víða í samfélaginu.

Reyndar er það svo að árangurinn sem náðst hefur í stjórn ríkisfjármála gæti verið tilefni til að endurmeta stöðuna, meðal annars með tilliti til þess hvort ástæða sé til að breyta áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum. Þá er ég sérstaklega að horfa til samdráttar í útgjöldum í velferðar- og menntamálum sem eiga að mínu mati að njóta þess svigrúms sem kann að myndast í ljósi reynslunnar eins og þegar hefur reyndar verið gert ráð fyrir í breytingartillögum sem gerðar hafa verið við það frumvarp sem við fjöllum um hér af hálfu meiri hluta Alþingis.

Sá slaki sem hefur orðið í aðhaldskröfum í ákveðnum málaflokkum og breytingartillögurnar hljóða upp á hefur fyrst og fremst myndast vegna þess árangurs sem hefur náðst í ríkisfjármálum og ég fór yfir hér áðan. Það leiðir til þess að ekki þarf að ganga eins hratt fram í samdrætti í útgjöldum og leit út fyrir um tíma, að öðrum kosti hefði það verið ómögulegt verk. Enn sem komið er hefur okkur því tekist að halda þeirri áætlun sem lagt var upp með í samstarfi við aðrar þjóðir og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Sá árangur sem okkur hefur tekist að ná í ríkisfjármálum frá haustinu 2008 hefur vakið athygli út fyrir landsteinana, hefur vakið athygli annarra þjóða og eftirtekt þeirra sem fylgjast vel með þeim þjóðum sem eiga við erfiðleika að glíma vegna efnahagskreppunnar.

Um mitt ár 2009 stóðum við frammi fyrir því að halli á ríkissjóði stefndi í að vera um 180 milljarðar kr. ef ekkert yrði að gert. Með þeim aðgerðum sem þá var gripið til tókst að koma í veg fyrir þann mikla halla sem að lokum endaði í rétt um 140 milljörðum kr. Í fjárlögum yfirstandandi árs var gert ráð fyrir halla upp á nærri 100 milljarða, en ljóst að sá halli er mun minni en stefndi í í upphafi og nú er gert ráð fyrir að halli á ríkissjóði verði um 33–34 milljarðar og frumjöfnuður verði upp á 17 milljarða, eða um 1,8% af vergri landsframleiðslu sem er samkvæmt þeirri áætlun sem við vinnum eftir þannig að við stöndum á pari hvað það varðar. Á þessu sést að gríðarleg umskipti hafa orðið á stöðu ríkissjóðs á þessum tíma, eða rétt um 100 milljarðar kr. frá því sem blasti við á miðju ári 2009 og til þeirra spora sem við stöndum í í dag. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að við höldum ótrauð áfram því starfi sem við erum í á þessum vettvangi og stefnum óhikað að þeim markmiðum sem við ætlum okkur að ná, að undan því verði ekki hvikað að neinu leyti.

Á nýafstöðnu þingi Norðurlandaráðs, sem var haldið hér á landi í haust, lýstu forsætisráðherrar Norðurlandanna yfir undrun, þeir orðuðu það þannig sjálfir, yfir þeim árangri sem náðst hefði í efnahagsmálum á Íslandi frá hruninu 2008. Það kom fram í ræðum þeirra á þinginu sem og í fjölmiðlum að sá árangur sem hér hefði náðst hefði vakið athygli annarra þjóða sem fylgjast vel með framgangi mála hér á landi. Aðspurður af fréttamanni Ríkisútvarpsins hvernig þeir mætu árangur Íslands á leiðinni út úr kreppunni svaraði Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, með leyfi forseta:

„Mér þykir mikið til koma og ég er ekki einn um það. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur t.d. lagt fram lánsfé nú í þrígang og hefur lýst yfir ánægju sinni með starfið hér á Íslandi. Þið hafið ekki leyst úr öllum ykkar málum, en þið eruð á réttri leið og við höfum orðið vitni að mikilli framför.“

Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, svaraði sömu spurningu, með leyfi forseta:

„Það var mikilvægt að Norðurlöndin réttu Íslandi hjálparhönd við erfiðar aðstæður, en ég deili þeirri skoðun að Íslendingar búa yfir efnahagslegum styrk og hafa rétt hratt úr kútnum. Ég veit að þið hafið nýtt ykkur helming lánanna sem norrænu þjóðirnar buðu ykkur, en það er einnig ljóst að ekki virðist áframhaldandi lánsfjárþörf. Það segir talsvert um hve fljótt ykkur tókst að komast í gang aftur.“

Þessir tveir forustumenn, Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, og Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, eru sammála um að sá árangur sem hér er að nást sé eftirtektarverður og umfram það sem gert var ráð fyrir af þeim sem horfa til okkar utan frá.

Það er afar mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að við endurheimtum það orðspor okkar á erlendum vettvangi sem beið verulega hnekki í kjölfar falls íslensku bankanna haustið 2008. Því eru ummæli sem þessi okkur afar mikilvæg og hvatning til að halda áfram á þeirri braut sem við erum á við að endurbyggja íslenskt efnahagslíf að nýju. Ekki er þar með sagt að ummæli annarra þjóðhöfðingja eða erlendra stjórnmálamanna og stofnana séu hafin yfir allan vafa en þegar línan er jafnskýr og hér kemur fram er það okkur afar mikilvægt að fá hana staðfesta frá þessum tveim aðilum í það minnsta og eins og hefur komið fram frá samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem reglulega hefur endurnýjað samkomulagið við okkur í kjölfar efnahagsáætlunar sem við erum að halda.

Það verður því að segjast eins og er, virðulegi forseti, þegar ég les fyrstu setningu í nefndaráliti sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd á því máli sem við fjöllum hér um, að varla er hægt að vera með skýrari öfugmæli í nokkru máli en hér er borið fram. Ég ætla að leyfa mér að lesa fyrstu setninguna til að byrja með, með leyfi forseta:

„Ástand efnahagsmála sýnir glöggt að ríkisstjórnin hefur ekki valdið því hlutverki að endurreisa íslenskt efnahagslíf í kjölfar bankahrunsins haustið 2008.“

Það er inngangurinn að því nefndaráliti sem sjálfstæðismenn leggja fram, nánast einir þeirrar skoðunar að hér sé enginn árangur að nást í efnahagsmálum og ríkisstjórninni og þar með meiri hlutanum á Alþingi hafi mistekist að halda þeirri áætlun sem lagt var upp með, hvorki meira né minna. Áfram segir í nefndaráliti sjálfstæðismanna, 1. minni hluta fjárlaganefndar, með leyfi forseta:

„Endurskoðuð þjóðhagsspá boðar ekki gott, fjárfesting hefur aldrei verið minni […] og erfitt er að sjá með hvaða hætti endurreisn á að fara fram þegar það virðist beinlínis vera á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að standa í vegi fyrir fjárfestingu á Íslandi — hvort sem er innlendri eða erlendri. Nýir skattar ríkisstjórnarinnar letja flestir til fjárfestingar og má nefna að í sjávarútvegi halda menn sig til hlés meðan framtíðarskipan atvinnugreinarinnar er haldið í skjálfandi og óráðnum vinstri heljargreipum, sem og fjárfestingu í gagnaverum, þar sem stirfni í stjórnsýslu virðist ætla að ganga af verkefnum dauðum.“

Hvorki meira né minna, virðulegi forseti, „virðist ætla að ganga af verkefnum dauðum“. Rifjast þá upp fyrir mér viðtal sem ég las við hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd, á vefmiðli í gær þar sem hann lýsti því yfir að fjárlagafrumvarpið fæli „feigðina“ í sér. Hvorki meira né minna en það að feigðin fælist í því gagni sem hér hefur verið lagt fram á Alþingi. Ef ég man rétt var síðasta orðið í því viðtali, ég man ekki hvort það var orðrétt haft eftir honum, en það var þetta sama orð og ég las áðan, það er orðið „dauði“. Það getur vel verið að blaðamaðurinn hafi átt það orð en orðið „feigð“ var innan gæsalappa í viðtalinu.

Ég spyr hvort mönnum sé virkilega alvara með svona ummælum og svona umræðu, hvort menn ætlist til vitrænnar rökræðu um mál af þessu tagi sem er grafalvarlegt mál, sem er stórt og mikið mál, skiptir þjóðina miklu máli, að í því sé „feigðin ein uppmáluð“.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að við séum nú komin langt frá þeim stað sem við vorum á um mitt síðasta ár þegar hér var látlaust rætt um þjóðargjaldþrot og inngöngu í Parísarklúbbinn fræga; þrátt fyrir að áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum hafi gengið eftir, eins og ég hef þegar farið yfir hér áðan; þrátt fyrir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lýsi yfir árangri við enduruppbyggingu efnahagslífsins og það sé meiri árangur en búist var við. Þrátt fyrir að leiðtogar annarra þjóða lýsi yfir undrun sinni og ánægju með þann árangur sem við erum að ná hérna, segja sjálfstæðismenn að ástandið sýni glöggt að ríkisstjórnin hafi ekki náð nokkrum tökum á málinu, hér sé ekkert að gerast og „feigðin ein sé uppmáluð“ í þeim tillögum sem hér eru lagðar fram. Einangraðri held ég að nokkrir stjórnmálamenn geti ekki verið í málflutningi sínum en hér er vitnað til.

Eru menn ekki nógu stórir inni í sér til að viðurkenna þó þann árangur sem hefur náðst? Getum við ekki í það minnsta verið sammála um að okkur miðar áfram og ástandið sé betra en útlit var fyrir á síðasta ári, við upphaf síðasta árs, haustið 2008, haustið 2009 þegar við vorum að ræða fjárlög yfirstandandi árs hér á þingi? Sleppum því að þakka þeim sem kannski eiga þakkir skildar fyrir það hvernig er komið. Sleppum því að kenna þeim um að ekki hafi gengið betur. En getum við ekki sammælst um þetta? Getum við ekki verið nokkuð brött með okkur þrátt fyrir allt, að okkur hafi tekist að þoka málunum áfram á rétta leið?

Ég ætla að vona að það verði og hvet þingmenn til að reyna að tala ekki hlutina niður eins og gert hefur verið í algjörri rökleysu. Ég skil að vísu þá afstöðu stjórnarandstöðunnar að gagnrýna þau mál sem stjórnin ber upp, meiri hlutinn hér á Alþingi, það er fullkomlega eðlilegt, það er í og með hlutverk stjórnarandstöðunnar að gera það.

Mikilvægi þess að halda þeirri áætlun sem hér hefur verið unnið eftir á þessu sviði á ekki einungis við um efnahag Íslands eða inn á við fyrir okkur Íslendinga heldur skiptir það gríðarlegu máli fyrir trúverðugleika okkar sem þjóðar. Glíman stendur ekki aðeins um efnahagslega uppbyggingu landsins inn á við heldur og ekki síður er gríðarlega mikilvægt að við náum aftur að öðlast stöðu meðal þjóða á þessum vettvangi sem þjóð sem er traustsins verð. Stjórnvöld, hver sem þau eru hverju sinni, verða að sýna það í verki og árangurinn skilar því að við séum traustsins verð, þ.e. ef okkur miðar í rétta átt og áfram.

Það er athyglisvert, í ljósi þess samdráttar sem á sér stað í ríkisrekstrinum, sem er óhjákvæmilegur, hvernig hlutföll útgjalda til einstakra málaflokka eru og úr því má meðal annars lesa hverjar áherslur Alþingis eru hvað það varðar. Í því endurspeglast vilji Alþingis til einstakra málaflokka og einstakra mála og hvar beri að fara varlega í sakirnar en ganga frekar harðar fram á öðrum stöðum. Ef útgjöld til tiltekinna þátta í útgjöldum ríkisins eru skoðuð og borin saman við fyrri ár kemur í ljós að stærri hluta þjóðartekna er nú varið til velferðarmála, til „public spending“, ef svo má kalla það, sem OECD vitnar í til samanburðar á milli landa. Þá kemur í ljós að samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir að 7,8% af vergri landsframleiðslu fari í þessa málaflokka en sambærilegt hlutfall á hinu merka ári 2007 var 6,8%, eða prósentustigi minna. Í þessu sambandi eru velferðarútgjöldin talin til útgjalda til lífeyristrygginga, sjúkratrygginga, atvinnuleysistrygginga, framhaldsskóla og háskóla. Það vekur sömuleiðis athygli að þrátt fyrir að þessi árangur sé þó að nást hafa vaxtagjöld ríkisins margfaldast eins og hér hefur oftsinnis verið rætt um og farið úr 1,28% af þjóðarframleiðslu upp í 4,6% af vergri þjóðarframleiðslu á næsta ári. Þrátt fyrir það tekst að verja þessa hluti eins og að var stefnt.

Í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram hér á Alþingi í byrjun október er gert ráð fyrir að hagvöxtur á næsta ári verði 3,2% sem byggist á þjóðhagsspá Hagstofunnar frá því í júní sl. Ný spá Hagstofunnar gefur hins vegar til kynna að hagvöxtur á næsta ári verði minni en áður var áætlað, eða um 1,9%, en Seðlabankinn spáir lítið eitt meiri hagvexti á árinu. Ný þjóðhagsspá hefur auðvitað áhrif á fjárlagagerðina og hefur verið tekið tillit til þess eins og fram kemur í þeim gögnum sem hér eru til umræðu.

Þrátt fyrir að nú sé spáð minni hagvexti en áður er það þó ekki þannig að draga muni úr hagvexti eins og lesa má úr mörgum þeim ræðum sem hafa verið haldnar hér í dag og á undanförnum dögum og í fjölmiðlum. Auðvitað er það ekki svo að það sé að draga úr hagvexti. Hagvöxtur er að aukast, um það eru allir sammála, hagvöxtur mun aukast. Við getum deilt um það, spár eru mismunandi hvað það varðar, hvort það er 1,9% eða 2,1% eða hver svo sem sú tala er, en staðreyndirnar blasa við, um það eru allir sammála að hagvöxtur mun aukast á næsta ári.

Það er hægt að tala þetta niður og mála eins dökkum litum og mönnum sýnist án þess að ég geri mér grein fyrir því í hvaða tilgangi það er gert. Mér sýnist í fljótu bragði að um þetta séu allir aðilar sammála, hvort sem það er Seðlabankinn, Hagstofan, greiningardeildir bankanna eða aðrir sem blanda sér í þessi mál, fyrir utan stjórnarandstöðuna á Alþingi sem lítur þetta eitthvað öðrum augum.

Það hlýtur einnig að skipta miklu máli að Seðlabankinn hafi lækkað stýrivexti sína um 1% nú í morgun eins og komið hefur fram í ræðum þingmanna hér í dag og hafa þeir þá lækkað úr 18% á síðasta ári niður fyrir 4,5% sem er í dag. Og ætli það skipti nú ekki máli fyrir rekstur heimila, rekstur fyrirtækja og rekstur ríkisins? Auðvitað hefur þetta mikil áhrif.

Er það ekki ákveðin lýsing líka og mat á ástandi og horfum í efnahagsmálum þegar Seðlabankinn lækkar vexti jafnduglega og gert var hér í morgun, um 1%, ásamt því að lýsa því yfir að svigrúm sé fyrir auknar vaxtalækkanir við næstu ákvörðun. Auðvitað styrkir það okkur á þeirri vegferð sem við erum á. Auðvitað er það yfirlýsing um að við erum á réttri leið við stjórn efnahagsmála á Íslandi og hvatning til að halda áfram á sömu braut.

Það skiptir máli að verðbólga er að ná þeim markmiðum sem Seðlabankinn hefur sett sér. Er nú langt um liðið, ef það hefði þá nokkurn tímann gerst á undanförnum árum, síðan verðbólgumarkmið Seðlabankans hafa náðst. Það er í það minnsta langt síðan það hefur gerst en það er þó að gerast núna. Ætli það skipti nú ekki máli líka? Er það ekki ákveðið teikn um það hvort við erum á réttri leið eða rangri leið, hvort við erum að fara í rétta átt eða ranga átt, áfram eða aftur á bak? Er það ekki ákveðið tákn um það? Ég hefði haldið það. Er það nú ekki lengur mikið gleðiefni hér í þessum sal ef hagvöxtur er að aukast eftir það hnignunartímabil, sem hefur verið kallað svo í nefndaráliti, sem hófst haustið 2008 og fylgdi í kjölfar falls bankanna? Er það ekki orðið gleðiefni að hagvöxtur sé að aukast og hjólin séu þá þrátt fyrir allt farin að snúast og okkur sé að miða áfram, hverju svo sem það er að þakka ef það er þá nokkrum að þakka? En er það ekki gleðiefni og er ekki þess virði að gleðjast yfir því? Og kætir það engan lengur að stýrivextir hafa lækkað og verðbólgumarkmið sé að nást? Auðvitað er það ekki þannig að hér sé allt að fara fjandans til eins og heyrst hefur í málflutningi sumra þingmanna. Við erum á réttri leið. Við erum að þokast áfram. Það er ekki tilviljun ein. Við getum auðvitað talað alla hluti niður eins og við viljum og reynt að telja hvert öðru trú um að allt sé að fara niður á við, en þannig er það ekki, sama hvað allri bölsýni líður.

Árangur í ríkisfjármálum blasir við okkur öllum ef við viljum og þorum að horfast í augu við það og þorum að viðurkenna það. Það þýðir þó ekki, virðulegi forseti, að við séum komin á leiðarenda eða að við getum farið að slaka á við efnahagsstjórn landsins, langur vegur frá. Við eigum enn langt í land. Við erum á árinu 2010, að ræða fjárlög 2011, markmiðinu ætlum við að ná 2013. Það er enn langt í land. Þrátt fyrir að sá árangur sem við erum að ná sé augljós vara ég við því að við ofmetnumst og þykjumst vera búin að ná það miklum tökum á málum að við getum farið að slaka á, það er ekki þannig. Við verðum að halda áfram. Ef við ætlum að skapa hér það velferðarsamfélag sem við stefnum að er forsendan fyrir því að ná tökum á efnahagsmálum, annars verður ekki um neitt velferðarsamfélag að ræða.

Virðulegi forseti. Miklar breytingar hafa verið gerðar á fjárlagafrumvarpinu frá því að það var lagt fram á Alþingi í byrjun október. Formaður fjárlaganefndar hefur farið yfir þær breytingar í ræðu sinni hér í dag og ætla ég ekki að endurtaka þá upptalningu. Þó er nauðsynlegt að benda á að þær breytingar sem hafa átt sér stað eru hvorki tilviljunarkenndar né stefnulausar eða ómarkvissar heldur falla þær þvert á móti að þeim markmiðum og áherslum sem fram komu í fjárlagafrumvarpinu í upphafi og í stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Í samræmi við forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er leitast við að hlífa eins og kostur er velferðarþjónustunni og tekjutilfærslu til þeirra sem búa við lökustu kjörin og var ákveðið að aðgerðir á útgjaldahlið væru af þrennum toga hvað það varðar á sínum tíma.

Aðhald í útgjöldum hefur lagst misþungt á málaflokka og þannig er gert ráð fyrir 9% aðhaldskröfu á almenna stjórnsýslu en velferðarþjónustu, framhaldsskólum og löggæslu hefur verið gert að draga saman um 5% og sjúkratryggingum um 3%. Yfir þetta hefur verið farið hér í ræðum í dag og í 1. umr. þessa frumvarps og óþarfi að fara dýpra inn í þau mál. Þó er rétt að benda á að á tveimur árum hefur verið dregið saman um 20% í almennri stjórnsýslu á Íslandi í þeim fjárlagafrumvörpum sem við höfum rætt og í þeim fjárlögum sem hafa verið samþykkt hér á Alþingi og í þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin og meiri hlutinn á Alþingi hafa gripið til — 20% í almennri stjórnsýslu en velferðarmálin og önnur mál eru innan við helming þess samdráttar. Í því felst auðvitað ákveðin pólitísk áhersla.

Í þeim breytingum sem lagðar hafa verið fram með því fjárlagafrumvarpi sem við ræðum hér af hálfu meiri hluta fjárlaganefndar er rétt að nefna nokkur atriði sem vega þungt í þeim breytingum til útgjalda sem meiri hlutinn leggur til. Er þar fyrst að nefna að hætt hefur verið við áform um að draga saman um milljarð í útgjöldum til fæðingarorlofs. Útgjöld til heilbrigðismála hafa verið aukin um milljarð, auk þess sem millifærslur til heilbrigðismála, upp á 600–700 milljónir, ef ég man rétt, bætast við til að rétta hlut heilbrigðismála. Ákveðið hefur verið að setja sérstakt framlag inn í jöfnunarsjóð til að mæta þeim sveitarfélögum sem eiga í mestum fjárhagslegu erfiðleikum upp á 700 milljónir. Ákveðið hefur verið að setja inn 600 milljónir til að mæta húsaleigubótum í Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Ákveðið hefur verið að lengja atvinnuleysisbótaréttinn um eitt ár, sem kostar 650 milljónir og svo mætti áfram telja, virðulegi forseti, eins og fram kemur í þeim gögnum sem fylgja frá meiri hluta fjárlaganefndar og fylgja í nefndaráliti.

Virðulegi forseti. Það er afar mikilvægt, og aldrei nægilega vel undirstrikað, í þeirri vinnu sem nú á sér stað við að endurbyggja íslenskt efnahagslíf, að við höldum okkur við þá áætlun sem lagt var upp með í þá veruna á árinu 2009 að ná jöfnuði í ríkisfjármálum og hrökkvum ekki úr þeim gír þó að á reyni á þeirri vegferð. Þær tillögur sem gerðar hafa verið til breytinga á fjárlagafrumvarpinu sem hér um ræðir eru umfangsmiklar og ganga flestar í þá átt að draga úr samdrætti í útgjöldum. Þar er hins vegar að mínu mati langt gengið og verður ekki lengra farið á þeirri braut ef við ætlum okkur á annað borð að standa við þá áætlun sem við höfum sett okkur í ríkisfjármálum, að ná tökum á þeim. Hvert ár sem líður án þess að okkur takist ætlunarverkið mun verða okkur dýrt og gera lítið annað en að auka á þann sársauka sem óneitanlega fylgir samdrætti í ríkisútgjöldum.

Sem stendur eigum við ekki fyrir útgjöldum til að reka samfélagið. Við rekum okkur með tapi á hverjum einasta degi. Á hverjum einasta degi frá árinu 2008 höfum við rekið okkur með tapi. Það er dýrt og það þýðir sömuleiðis að við eyðum miklum fjármunum í vexti af þeim halla sem betur væru komnir í samfélagslegan rekstur eða til nauðsynlegrar uppbyggingar í samfélaginu. Reyndar er það svo, eins og hér hefur margoft verið farið yfir, að þó svo að það blasi við að við rekum ríkissjóð með halla og eigum ekki fyrir útgjöldum er það í sjálfu sér ekki ný frétt því að þessi innstæða var ekki til á sínum tíma. Þegar á reyndi var hún eins og hver önnur froða sem skolaðist niður svelginn, falskir peningar og falskt öryggi sem við bjuggum við í efnahagsmálum.

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert nú, eftir að fjárlaganefnd hefur haft frumvarpið í vinnslu í ríflega tvo mánuði, að þá lagði minni hluti í fjárlaganefnd, ef ég man rétt, aldrei fram eina tillögu um breytingu á frumvarpinu. Ég man ekki til þess — ég skal þó samt hafa þann fyrirvara á því að ég sat ekki alla fundi fjárlaganefndar, þó langflesta — að fram hafi verið lögð tillaga til umræðu um breytingar á fjárlagafrumvarpinu. Það finnst hér athyglisvert í jafnstóru og miklu máli sem hér um ræðir. Það er ekki fyrr en núna — þegar við erum að fara í 2. umr. og erum að lesa nefndarálit minni hluta fjárlaganefndar, bæði 1. minni hluta, sem ég vitnaði í hér áðan, frá sjálfstæðismönnum, 2. minni hluta, frá fulltrúa Framsóknarflokksins, og 3. minni hluta, frá fulltrúa Hreyfingarinnar — sem fram koma tillögur, ef svo má kalla, um áherslur sem þeir fulltrúar í fjárlaganefnd vilja sjá að verði lagðar í fjárlagafrumvarpinu. Ég vitna í nefndarálit frá 3. minni hluta fjárlaganefndar sem hv. þm. Þór Saari skrifar undir. Fljótt á litið eru lagðar fram tvær hugmyndir um breytingar á fjárlagafrumvarpinu: Í fyrsta lagi að tekið verði upp auðlindagjald af raforkusölu til stóriðju. Í öðru lagi að tekið verði upp auðlindagjald af úthlutuðum aflaheimildum.

Fleira fann ég ekki í þessu nefndaráliti af tillögum um breytingar á fjárlagafrumvarpinu, því miður. Ef hugmyndir eru uppi um að breyta fjárlagafrumvarpinu hefði ég gjarnan viljað fá þær og rökræða, helst í fjárlaganefndinni þar sem umræðan fór fram í rúma tvo mánuði, en það hefur ekki verið gert. Ég finn í sjálfu sér enga tillögu í þessu nefndaráliti varðandi breytingar á útgjöldum. Það eru einhverjar óljósar hugmyndir um safnliði og fleira sem skiptir kannski ekki öllu máli í stóra dæminu, en ég hef ekki rekist á miklar eða veigamiklar tillögur hér inni.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar, sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson skrifar undir, eru lagðar fram nokkrar tillögur, ef ég man rétt, varðandi breytingar á fjárlagafrumvarpinu. Þar er sérstaklega lögð fram tillaga um tekjur af séreignarsparnað sem hefur verið rædd hér í þingsölum. Gerð er tillaga um aflaaukningu sem á að skila miklum tekjum. Gerð er tillaga um að ríkið fari í orkufrekar framkvæmdir. Gerð er tillaga um vaxtalækkun, að það eigi að lækka vexti. Ég átta mig ekki alveg á hvað hv. þingmaður er að fara með því, hvort gera eigi það handvirkt eða (Gripið fram í.) hvort fylgja (Gripið fram í.) eigi því eftir með einhverjum öðrum málum. Í það minnsta segir hér, með leyfi forseta:

„Alþingi ætti því að sammælast um breytingar á peningamálastefnu og vaxtastigi Seðlabankans.“

Alþingi á að sammælast um vaxtastig Seðlabankans að mati þingmannsins. Allt í fína, þetta er tillaga sem er vert að ræða. Það er rætt um almenna sparnaðarkröfu til aðalskrifstofu ráðuneyta. Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Því telur 2. minni hluti eðlilegt að sparnaðarkrafa aðalskrifstofanna verði aukin þannig að þær nái markmiðum fjárlagafrumvarpsins um hagræðingu.“

Nú geri ég mér ekki alveg grein fyrir því en ég les það út úr þessu að hv. þingmaður ætlist til þess að hagræðingarkrafan verði meira en 9% í rekstri aðalskrifstofu, sem gerð hefur verið (Gripið fram í.) krafa um, því að það kemur fram að hún verði aukin en ekki að staðið verði við það sem þar er. Síðan er rætt um aukna matvælaframleiðslu o.s.frv. í tillögum 2. minni hluta fjárlaganefndar. Varðandi útgjöld er rætt um persónuafslátt. Þar segir:

„Annar minni hluti leggur til að fallið verði frá hugmyndum um að bótaflokkar almannatryggingakerfisins verði ekki uppfærðir í samræmi við verðlag. Þannig verði barnabætur ekki skertar auk þess sem staðið verði við gefin loforð um að persónuafsláttur hækki í samræmi við verðlag …“

Þetta eru tillögur 2. minni hluta varðandi persónuafslátt.

Annar minni hluti gerir sömuleiðis tillögur um að útgjöld til Vegagerðar ríkisins verði aukin. Sama á við um löggæsluna þar sem er almenn brýning um að staðið verði vörð við þá grunnþjónustu sem löggæslan er. Og 2. minni hluti leggur sömuleiðis til að veittir verði auknir fjármunir til Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Þetta eru þær tillögur í fljótu bragði sem ég rak augun í við lestur nefndarálita minni hluta fjárlaganefndar.

Í áliti 1. minni hluta fjárlaganefndar, sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins standa að, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, hv. þm. Ásbjörn Óttarsson og hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir, er fylgiskjal. Ekki eru beinlínis gerðar tillögur að breytingu á fjárlagafrumvarpinu sem slíku, hvorki á einstökum liðum þess né einstökum málaflokkum, heldur er fylgiskjal sem er tillaga til þingsályktunar um aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin, verja velferð með ábyrgum ríkisfjármálum, efla atvinnulíf og fjölga störfum. Ég lít þannig á að það sé þeirra tillaga varðandi fjárlagafrumvarpið þó að hún sé ekki þannig sett fram, enda sé hægt að tosast á eða greiða atkvæði um.

Ég fagnaði því á sínum tíma þegar sjálfstæðismenn lögðu þessa tillögu sína til þingsályktunar fram og fyrst og fremst vegna þess að hún bauð upp á rökræðu um hugmyndafræði. Mér finnst það mikilvægt á þeim tímum sem við nú lifum að tekist sé á um hugmyndafræði því að ég trúi því að við séum öll á þeirri leið að ná tökum á ríkisfjármálunum. Ég hef ekki heyrt annað, og nefni sem dæmi ræðu hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar hér í dag, en að við séum sammála því að við ætlum að halda okkur við það markmið að ná jöfnuði í ríkisfjármálum árið 2013 og að ekki verði gefið eftir í því. Ég hef ekki heyrt annað á fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd en að við séum sammála um það markmið. Þess vegna er gott að fá tillögur í þá áttina sem sjálfstæðismenn lögðu hér fram um það sem heitir Aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin o.s.frv. og er fylgiskjal með nefndaráliti þeirra við fjárlagafrumvarpið. Þar er nefnilega boðið upp á hugmyndafræðilegar rökræður. Það hefur verið ákveðinn skortur á því, að mínu viti, en jarðvegurinn er fyrir hendi. Jarðvegurinn er fyrir hendi í dag til að takast á um hugmyndafræði þegar við þurfum að byggja upp samfélag sem var nánast lagt af efnahagslega haustið 2008. Það er ekki bara nauðsynlegt heldur bráðnauðsynlegt að endurskipuleggja það með einhverjum hætti.

Ef ég man rétt tók ég einhvern þátt í þeirri umræðu sem hér varð, þó að lítil hafi verið, um þessa tillögu sem reyndar er ekki lokið enn þann dag í dag. Ég hef ýmislegt við þessar tillögur að athuga eins og fram hefur komið. Það er eitt og annað sem ég get tekið undir. Ég velti fyrir mér ýmsum tillögum sem þarna koma fram eins og varðandi aukningu í aflaheimildum, sem er skammtímaredding, algjör skammtímaredding. Ég velti fyrir mér hugmyndum um skattlagningu lífeyrissjóðssparnaðar sem er lán inn í framtíðina og ég er ósammála að farið sé í. Ég velti fyrir mér hugmyndum sem koma fram í tillögum sjálfstæðismanna um aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, ég er því andsnúinn o.s.frv. En það er eitt og annað þarna líka sem ég get að ýmsu leyti tekið undir og vildi gjarnan eiga frekari rökræðu um.

Ég hefði gjarnan viljað fá þessar hugmyndir ræddar í fjárlaganefnd fyrst þetta eru tillögur að breytingu á fjárlagafrumvarpinu, ég kýs að líta þannig á fyrst þetta fylgiskjal er með nefndarálitinu, aðrar tillögur eru ekki fyrir hendi. Ég hefði gjarnan viljað fá þessar tillögur til umræðu í fjárlaganefnd, formaðar sem slíkar, þannig að hægt væri að takast á um þær á þeim vettvangi og færa umræðuna hingað inn í þingsal á eftir.

Virðulegi forseti. Ég sé að tími minn er að verða búinn. Ég hélt ég hefði lengri tíma sem frummælandi en 40 mínútur, það hefur verið misskilningur af minni hálfu eða hvað? Ég tók eftir því að allir aðrir frummælendur höfðu klukkutíma, en ég skal bara sætta mig við það. (Gripið fram í: Það er niðurskurður.) Ég skal taka þann niðurskurð á mig, virðulegi forseti. Að lokum (Forseti hringir.) vil ég samt segja, af því ég tel mig eiga einhverjar mínútur inni, að það fjárlagafrumvarp sem við erum að ræða hér er yfirlýsing, það er pólitísk yfirlýsing um að við ætlum að ná tökum á efnahagslífi (Forseti hringir.) landsins og við ætlum ekki að láta neitt stoppa okkur í því.