139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:21]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Fyrst varðandi þá fyrirspurn sem kom fram í fyrra andsvari hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni um niðurskurð í rekstrarútgjöldum ráðuneyta er rétt að vekja athygli á því að við þá umræðu sem fer nú hér fram, 2. umr. um fjárlagafrumvarp næsta árs, og að teknu tilliti til verðbótaþátta er niðurskurður í forsætisráðuneyti 10,4%, mennta- og menningarmálaráðuneyti 6%, utanríkisráðuneyti 9,5%, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti 7,9%, félags- og tryggingamálaráðuneyti 7,2%, efnahags- og viðskiptaráðuneyti 9%, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti 9% o.s.frv. til að halda því til haga. Þannig er staðan á útgjöldum vegna reksturs þessara ráðuneyta við þessa umræðu eftir að tekið hefur verið tillit til verðlagsþátta.

Auðvitað hef ég áhyggjur af sveitarfélögum. Málefni sveitarstjórna hafa komið til minna kasta sem formanns samgöngunefndar og fulltrúa í fjárlaganefnd, og okkar sem erum þar, og það er vissulega áhyggjuefni hvernig komið er fyrir mörgum sveitarfélögum, t.d. á suðvesturhorninu sem standa hvað verst. Mörg dæmi eru um það, m.a. mál sem við höfum verið að afgreiða og koma frá okkur í ákveðinn farveg síðasta vetur. Mörg verkefni á því sviði blasa við okkur sem við þurfum að leysa á næstu missirum.

Varðandi tryggingagjaldið og það að skila aftur til sveitarfélaganna eða út í atvinnulífið umframtekjum sem koma inn vegna minna atvinnuleysis verður það auðvitað gert í fyllingu tímans þegar við höfum náð að byggja upp einhvern grunn fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð. Það má líka líta svo á að það framlag sem ríkið lagði í Atvinnuleysistryggingasjóð á sínum tíma til að greiða atvinnuleysisbætur sé innstæða þar á móti. (Forseti hringir.) Auðvitað verður þetta gert þegar atvinnuleysi hefur minnkað (Forseti hringir.) enn frekar en er núna og innstæða er komin þá fyrir því að fara í slíkar aðgerðir.