139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Það væri vel við hæfi að byrja á því að þakka hv. varaformanni fjárlaganefndar fyrir orð hans í garð sjálfstæðismanna fyrir störf þeirra í fjárlaganefnd. Ég er ekki grunlaus um að ég hafi séð blika tár á hvarmi hv. þingmanns þegar hann gaf þessa yfirlýsingu en engu að síður skal hún þökkuð sérstaklega.

Ég vil nefna hér út af umræðunni um tillögugerð stjórnarandstöðunnar að sú umræða er alltaf dálítill blekkingarleikur. Hlutverk stjórnarandstöðu á hverjum tíma er að gagnrýna ríkjandi stjórnvöld, veita meirihlutastjórnum aðhald, það er frumskylda stjórnarandstöðu. Það er ekki, allra síst miðað við hvernig skipan mála er til möguleika þingsins til að rækja starf sitt sem best, með neinum hætti sanngjarnt að stilla málum svo upp að stjórnarandstaðan hafi sömu stöðu og stjórnarmeirihlutinn til að koma með rækilega útfærðar tillögur í hverju málinu á fætur öðru. Við sjáum það bara á vinnslu fjárlagafrumvarpsins.

Fjárlaganefnd hefur beðið núna í allnokkurn tíma eftir tillögum framkvæmdarvaldsins um úrlausn umdeildra mála eins og heilbrigðismálanna. Það er ekki ýkja langt síðan þær komu. Að halda því fram að ekki hafi legið fyrir ein einasta tillaga — eins og ég sá haft eftir hv. formanni fjárlaganefndar á einhverjum vefmiðlinum — frá sjálfstæðismönnum er rakalaust, hér er 41 tillaga um breytingar á fjárlögum ríkisins í skjali sem var lagt fram í nóvember. Meira að segja er hér tilgreint útreiknað hvað þær eigi að kosta og hvernig á að fjármagna þær.

Tillögur sem ég fékk frá VG meðan ég var (Forseti hringir.) í stöðu hv. þingmanns lutu fyrst og fremst að því að eyða peningum. Ég spyr: (Forseti hringir.) Er með einhverri sanngirni hægt að halda því fram að sjálfstæðismenn séu að skjóta sér undan ábyrgð á því að leggja fram raunhæfar tillögur?