139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:30]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að sjálfsögðu ef við eigum von á því að hér komi fram formlegar og mótaðar tillögur frá stjórnarandstöðunni, þá sérstaklega Sjálfstæðisflokki, sem ég vonast til að verði, um ákveðin atriði, málaflokka og útgjaldaliði í fjárlagafrumvarpinu sem við getum þá tekist á um — (Gripið fram í.) jæja, ákveðna liði til útgjalda eða tekna. Hv. þingmaður spurði mig í andsvari áðan hvort ég liti þannig á að ekki kæmi til frekari útgjalda en hér hefur verið gefið til kynna og liggur frammi við þessa umræðu. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að við séum komin mjög nálægt þeirri línu sem við megum ekki fara yfir. (Gripið fram í: Hvað er …?) Ég er eindregið þeirrar skoðunar að við verðum að taka hvert skref af mikilli varúð lengra í þá áttina og helst vildi ég ekki fara langt inn á þá braut. Ég er þeirrar skoðunar að best og farsælast fyrir þessa þjóð sé að taka málin af þeirri festu sem hefur verið gert hingað til og að við verðum þeim mun fljótari út úr þeirri efnahagskrísu sem við erum í en ef við drögum það á langinn.

Auðvitað veit ég að þarna bíða ákveðin verkefni eins og skuldamál heimilanna og aðgerðir ríkisins hvað þau varðar. Það hefur verið gert ráð fyrir hluta af því, m.a. í fjáraukalögunum varðandi fjármögnun Íbúðalánasjóðs. Þar er ekki um útgjöld ríkisins að ræða heldur skuldabréfaútgáfu og útgáfu á bréfum Íbúðalánasjóðs til að fjármagna það og eign þar á móti að sjálfsögðu. Við eigum eftir að fá nánari útfærslu á þeim pakka, sem kallaður hefur verið, til að koma til móts við skuldavanda heimila og fyrirtækja í landinu. Við þurfum að koma eitthvað að því. Varðandi útgjöld (Forseti hringir.) í rekstri samfélagsins er ég eindregið þeirrar skoðunar að við eigum ekki (Forseti hringir.) að ganga lengra, í það minnsta fara mjög varlega í það að ákveða að auka þau umfram það sem hér er gert ráð fyrir.