139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:32]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Forseti. Hv. þingmenn Oddný Harðardóttir og Björn Valur Gíslason, formaður og varaformaður fjárlaganefndar, hafa farið ágætlega yfir útlínur frumvarps til fjárlaga eins og það líta út fyrir 2. umr. Þau hafa farið yfir alla megindrættir frumvarpsins eftir breytingar sem hafa orðið á í nefndinni og allt sem að því lýtur. Þau hafa haldið til haga staðreyndum um árangur og stöðu í ríkisfjármálum og efnahagsmálum. Hv. þm. Björn Valur Gíslason fór rækilega og afdráttarlaust yfir það og sérstaklega meginstaðreyndir sem standa á bak við ramma fjárlaganna. Þessar stóru útlínur efnahagsmála eru þær að á rúmlega ári hafa vextir gengið niður úr 18% í 4,5% og verðbólga að sama skapi úr 18–19% niður í 2,5%. Þetta stendur því að baki að ramminn er eins og hann er og ekki þarf að ganga harðar fram eða lengra í hagræðingu og hagræðingarkröfum á hinar ýmsu stofnanir enda nógu erfitt að ná því fram sem hér er lagt upp með.

Ég ætla að dvelja við nokkur sjálfstæð atriði sem ekki hafa verið nefnd hér þar sem formaður og varaformaður nefndarinnar hafa farið yfir allar stærri útlínur efnahags- og ríkisfjármála og þann verulega góða árangur og viðsnúning sem orðið hefur í ríkisfjármálum á skömmum tíma.

Það sem skiptir miklu máli í úrvinnslu frumvarpsins á milli 1. og 2. umr. fjárlaga var að afturkalla þær róttæku tillögur og kerfisbreytingu sem fólust í tillögum um rekstur heilbrigðisstofnana úti um allt land. Í tillögunum í frumvarpinu fyrir 1. umr. var lagður til verulegur niðurskurður, á bilinu 15–40%, á heilbrigðisstofnunum úti á landi sem fólst í raun og veru í þeirri grófustu mynd að sjúkrasvið þessara stofnana yrðu meira og minna lögð niður og starfsemi þeirra færð á stóru spítalana á Akureyri og á Landspítalann. Ég ætla ekki að leggja mat á þá spítalapólitík sem stendur á bak við hugmyndirnar en augljóslega var útilokað að ná fram annarri eins kerfisbreytingu sem margir vildu meina að gengi algjörlega á skjön við lög um starfsemi heilbrigðisstofnana úti um allt land í frumvarpi til fjárlaga. Þessar tillögur hjuggu að starfsemi þessara stofnana, að öryggi íbúa um allt land til heilbrigðisþjónustu. Við fórum strax fram á það, þingmenn bæði stjórnar og stjórnarandstöðu, að þetta yrði endurmetið í samráði við stofnanirnar sjálfar og hagræðingarkröfunni, sem er í kringum 3% á heilbrigðiskerfið í heild sinni, yrði dreift jafnar á heilbrigðisstofnanirnar, bæði hinar smærri og stærri.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hafði samráð við forstöðumenn allra heilbrigðisstofnana hringinn í kringum landið. Fékk frá þeim tillögur, sumar ítarlega vel útfærðar, af því að allir bjuggust þeir við hagræðingarkröfu. Í sumum tilfellum voru þessar tillögur meira og minna teknar í endurmat og liggja endurskoðuðum tillögum til grundvallar. Það er mikið fagnaðarefni að tillögurnar voru afturkallaðar. Þeim er ekki frestað heldur eru kerfisbreytingarnar sem felast í því að leggja af sjúkrasvið heilbrigisstofnananna úti á landi afturkallaðar. Það er ekki verið að reka litla landspítala úti um allt land heldur er um grunnþjónustu að ræða sem snýr að aðgengi fólksins um allt land að heilbrigðisþjónustu, lyflækningum, starfsemi sem er tengd öldrunarþjónustu, líknarmeðferð og að sjálfsögðu því sem skiptir svo gífurlega miklu máli sem er fæðingarþjónusta. Bæði reglubundin þjónusta við ófrískar konur og fæðingarhjálp sem skiptir miklu máli.

Endurmatið fór fram á þeim stutta tíma sem gafst; fimm, sex eða sjö vikum. Ég held að það megi segja hæstv. ráðherra heilbrigðismála og hans starfsfólki til hróss að það tókst afskaplega vel til. Ég er sáttur við tillögugerðina sem liggur fyrir. Þar er gengið mun mildar fram og þurfa margar af þessum stofnunum, svo ég taki sem dæmi Heilbrigðisstofnun Suðurlands, engum að segja upp.

Út frá fyrri tillögum þurfti að segja upp tugum einstaklinga á þeirri stóru og miklu stofnun sem þjónar stóru svæði sem spannar hátt í helminginn af Íslandi landfræðilega. Með þessum nýju tillögum með hagræðingarkröfu upp á 5,6% þarf engum að segja upp. Stofnanirnar sjálfar eru búnar að vinna tillögur í sömu veru. Með þessu mætti ná fram margs konar hagræðingu, vinnutímbreytingum, tímabundnum launaskerðingum o.fl. Ég fagna því að tillögurnar voru teknar til jafnrækilegs og -afdráttarlauss endurmats sem hér um ræðir þannig að hagræðingin vegi ekki að starfsemi heilbrigðisstofnana hringinn í kringum landið. Þetta er gífurlega viðkvæm þjónusta.

Umræðunni var að vissu leyti snúið upp í umræðu um atvinnumál á landsbyggðinni. Að sjálfsögðu tengist það því líka, það er eðlilegt. Hver er sjálfum sér næstur þegar kemur að starfsemi, tekjum og atvinnu fyrir fjölskylduna. En það sem mestu skiptir og umræðan snerist um í endurmatinu var þjónustan sjálf, gæði þjónustunnar sem stjórnvöld eru skuldbundin samkvæmt lögum til að halda úti. Fyrri tillögur gengu gegn þessu að mínu mati og ég fagna því að svona hafi tekist til. Ég veit að það er erfitt fyrir margar stofnanir að ná þessu fram en þeim mun takast það mun betur en áður var lagt upp með. Það er sérstakt ánægjuefni að þetta var mildað með þessum hætti og fyrri stefna kölluð til baka. Þetta er unnið í samráði og samstöðu við heimamenn, sveitarstjórnarmenn og þá sem reka þessar stofnanir sjálfir.

Ekki tókst að breyta tölum er varða Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja, en það verður gert fyrir 3. umr. Þar náðist ásættanleg niðurstaða um hagræðingarkröfu upp á í kringum 6%.

Síðan er eitt mál óleyst sem þetta snertir líka. Heilbrigðisstofnun af öðru tagi sem er Náttúrulækningafélagið í Hveragerði. Þar kom fram tillaga frá ráðuneytinu um aukna hagræðingarkröfu frá tæpum 6% upp í 17–18%. Það er óviðunandi krafa sem vegur að rótum starfsemi þessarar mikilvægu stofnunar sem Náttúrulækningafélagið svo sannarlega er þegar kemur að hvers kyns forvarnastarfsemi. Þarna fara inn hundruð einstaklinga á hverju ári, ná þar heilsu og bata og kröftum. Þar með er komið í veg fyrir, í fjöldamörgum tilfella, að fólk verði langt um aldur fram að erfiðum og þungum sjúklingum á kerfinu. Ég held að starfsemi stofnunarinnar spari heilbrigðiskerfinu og íslenska ríkinu mikla fjármuni.

Þetta er mikilvæg stofnun. Núna stendur yfir endurmat á tillögunni sem er í viðræðuferli á milli ráðuneytis, stofnunar og fjárlaganefndar. Ég trúi því og treysti að við munum ná ásættanlegri lausn fyrir alla aðila í þessu máli eins og í tillögugerðinni allri sem sneri að öðrum heilbrigðisstofnunum. Auðvitað er starfsemi Náttúrulækningafélagsins ekki hefðbundin. Hér er ekki um spítala eða heilsugæslu að ræða heldur öflugan og mikilvægan hlekk í heilbrigðisþjónustu okkar almennt, hlekk sem er notaður af fólki hringinn í kringum Ísland. Fólki á ýmsum aldri fer þarna inn til endurhæfingar og endurnæringar. Það er nýbúið að bæta inn öflugri starfsemi sem snýr að því að vinna fólk út úr erfiðu þunglyndi á skömmum tíma með afgerandi og jákvæðum hætti. Reynslan hefur sýnt að sú viðbót hefur verið mikilvæg. Ég tel að við eigum að standa vörð um starfsemi stofnunarinnar þó að ráðamenn þar átti sig að sjálfsögðu á því að þeir þurfa að mæta kröfu um niðurskurð og hagræðingu eins og aðrar á þessum tímum. Við verðum að gæta þess að krafan gangi ekki þannig að stofnuninni að hún vegi að starfsemi hennar og rótum. Ég trúi að við munum ná þeim árangri eins og hvað varðaði aðrar heilbrigðisstofnanir á Íslandi.

Ég tók sérstaklega fram áðan að þetta væri ásættanleg niðurstaða með endurmat hagræðingartillagnanna og krafnanna á heilbrigðisstofnanirnar hringinn í kringum landið. Ég ítreka að ég skil þetta þannig og minn stuðningur við þetta er að hér er um stefnubreytingu að ræða, ekki frestun á kerfisbreytingu sem á að keyra fram vegna sparnaðar í fjárlagagerð. Allar meginbreytingar á þessari viðkvæmu þjónustu þurfa að sjálfsögðu að eiga sér pólitískan, faglegan og vandaðan aðdraganda þannig að sveitarstjórnarmenn, alþingismenn og þeir sem nýta þjónustuna heima í héraði séu sáttir við breytinguna sem á sér stað. Það skiptir öllu máli. Öryggi Íslendinga hringinn í kringum landið til heilbrigðisþjónustu. Það er allt önnur staða að búa í dreifbýli þar sem eru tugir og jafnvel hundruð kílómetra á næstu heilbrigðisstofnun, eins og staðreyndin er í dag og verður alltaf í jafndreifbýlu landi og Íslandi. En að leggja niður grunnþjónustu eins og fæðingarþjónustu, líknarmeðferð og lyflækningadeildir á sjúkrahúsum og gera fólki að sækja það alla leið til Reykjavíkur um 400 kílómetra leið er algjörlega fráleitt. Það kom að mínu mati aldrei til álita. Ég fagnaði því samhenta átaki sem fór fram gegn þessum tillögum og því jákvæða endurmati sem átti sér síðan stað.

Annað sem ég vildi nefna sem er stórt mál til hliðar við fjárlögin sjálf. Þegar maður skoðar framlög til samgönguverkefna og vegagerðar eru þau tiltölulega lág miðað við metárin miklu 2006, 2007 og 2008 þegar varið var á þriðja tug milljarða á hverju ári til nýframkvæmda í vegagerð. Þetta voru algjör metár sem við uppskerum nú af með ánægjulegum hætti.

Á örfáum mánuðum er búið að taka í gagnið margar dýrar og stórbrotnar samgönguframkvæmdir og þar get ég nefnt brú yfir Hvítá við Bræðratungu, Landeyjahöfn og margt annað. Langþráð verkefni, baráttumál margra, er loksins í höfn þar sem boðinn var út fyrsti áfangi að tvöföldun og breikkun á Suðurlandsvegi. Þar fara vinnuvélar nú mikinn alla daga og gengur vel og hratt.

Í frumvarpinu er að sjálfsögðu dregið verulega saman í nýfjárfestingum í samgöngumálum. Það útskýrist að hluta af því að hv. þm. Kristján Möller, fyrrverandi samgönguráðherra, fer fyrir því samningakerfi við lífeyrissjóðina. Það mun vonandi skila okkur, og kemur jafnvel í ljós í dag eða á morgun, fjárfestingum í samgönguframkvæmdum upp á 3 eða 4 tugi milljarða kr. Það á að ráðast í gífurlega stór verkefni þar sem ljúka á tvöföldun og breikka stofnæðar út frá Reykjavík, þ.e. Vesturlandsveg, Reykjanesbraut, Suðurlandsveg, gangagerð úti á landi og fleiri stórframkvæmdir. Munu þessir samningar takast og verkin boðin út, eins og ég segi, upp á 3 og 4 tugi milljarða kr., mun það að sjálfsögðu skipta miklu máli bæði hvað varðar hagvaxtarspá og ýmislegt annað í umhverfi ríkisfjármála okkar og efnahagsmála á næsta ári. Það blasir við að það verði farið í þessi verkefni. Ég held að það sé skynsamleg og jákvæð niðurstaða í þessu árferði að útvista þessum verkefnum og fá innspýtingu í hagkerfið. Um leið náum við að koma til framkvæmda mörgum mikilvægum og áríðandi samgönguverkefnum sem annars þyrftu að sitja á hakanum árum saman út af samdrætti í ríkisfjármálum og því hvernig þar árar.

Nokkur verkefni biðu tímans vegna og ýmissa aðstæðna milli 2. og 3. umr. Má þar sérstaklega nefna, auk Náttúrulækningafélagsins í Hveragerði sem ég nefndi áðan, Isavia. Það verður sérstaklega skoðað á milli umræðna og menntastofnunin Keilir á Ásbrú á Vallarheiðinni í Reykjanesbæ. Þar áttum við ágætan fund í dag, þingmenn Suðurkjördæmis, með menntamálaráðherra og Hjálmari Árnasyni, skólameistara skólans, þar sem farið var yfir stöðu hans, hver væri raunverulegur grundvöllur skólans, hver væri skilgreiningin á starfsemi skólans og við hvað væri réttlátt og sanngjarnt að miða þegar kæmi að framlögum til skólans. Skólinn er með reiknuð framlög út frá ákveðnum viðmiðum fyrir 100 nemendur en er með yfir 400 nemendur í það heila. Það ber mikið á milli í óskum skólans um framlög og tillögunnar sem fyrir liggur sem er út frá framlögum til skólans frá því í fyrra.

Tilkoma, aðdragandi og tilvist skólans átti sér stað með sérstökum hætti. Þegar herinn fór fyrir fjórum árum síðan var það gífurlegt áfall fyrir samfélagið þegar byggðin tæmist þarna upp frá. Keilir er eitt af afsprengjum þess og hefur tekist þar mjög vel til. Þetta er myndarleg og glæsileg menntastofnun, sambland af frumgreinadeild, framhaldsskóla, háskólabrú og mörgum öðrum viðurkenndum námsbrautum á framhaldsskólastigi og þar á milli. Það var aldrei búið að skýra myndina og skilgreina grundvöll skólans í upphafi. Það skýrist ekki af því að það hafi ekki einhver innt það af hendi heldur einfaldlega af því hvernig skólinn kom til. Fyrst var skammtað til hans fjármunum vegna þorskaflabrestsins árið 2007 og síðan var aldrei gengið frá samningum við skólann, ekki um hlutverk hans, grundvöll eða út frá hverju miða skyldi fjárframlögin. Það er mikill stuðningur við að starfsemin sé tryggð og skynsamlega verði að farið. Fundurinn með ráðherra, skólameistara og þingmönnum í dag var ánægjulegur og ég trúi því að hann skili því að menntamálaráðuneytið og menntastofnunin Keilir nái saman um samkomulag til framtíðar um grundvöll skólans, hver er skilgreiningin á honum og hvað þarf til að tryggja að rekstur hans út frá ákveðnum skilgreindum forsendum geti gengið hnökralaust og vel fyrir sig.

Svona mætti nefna ýmis verkefni sem voru til ítarlegrar umfjöllunar í fjárlaganefndinni, en ég nefni Keili sérstaklega af því að hann er eina menntastofnunin á öllu landinu sem ekki var með skilgreindan grunn hvað varðaði nemendaiðgjöld og framlög af hendi ráðuneytis og menntamálayfirvalda. Kom því til kasta menntamálanefndar að leiða það til lykta út frá hverju skyldi miða við þegar kæmi að framlögum til skólans. Það skiptir miklu máli að meðalaldur nemenda í Keili er 30 ár. Þarna fær fjöldi fólks annað tækifæri til náms eftir að hafa hætt í framhaldsskóla án þess að ljúka formlegu prófi á sínum tíma þegar það var á hefðbundnum framhaldsskólaaldri. Við vitum alveg að það eru þung skref sem fólk tekur þegar það er komið jafnvel á fertugsaldur að fara aftur inn í gamla framhaldsskólann þar sem allur meginþorri nemenda er á aldrinum 16 til 21 árs. Öldungadeildirnar hafa liðið að hluta til undir lok enda sinntu þær sínu hlutverki á sínum tíma.

Frumgreinadeildir skólanna, Keilir virkar að mörgu leyti sem frumgreinanám fyrir Háskóla Íslands, skipta gríðarlega miklu máli. Þarna er öflugt fjarnám fyrir fullorðið fólk sem er að mennta sig og ná sér í formleg réttindi í gegnum skólann. Ég held að starfsemi hans og tilurð sé mikið fagnaðarefni ekki bara fyrir mannlífið á Suðurnesjum, sem þarf sárlega á aukinni atvinnu að halda og aukinni starfsemi, heldur fyrir fólk sem leitar sér að tækifærum til aukinnar menntunar. Þetta vildi ég nefna sérstaklega af því að þetta mál er í þessu sérstaka ferli sem það var leitt í núna áðan á þessum ágæta fundi.

Samgönguverkefnið sem ég nefndi áðan og lífeyrissjóðasamkomulagið eða útboð ríkisins á verkefnunum með öðrum hætti ef ekki næst samráð við lífeyrissjóðina. Ég trúi því og treysti að við munum ná saman við lífeyrissjóðina, að þetta samkomulag náist sem skiptir svo miklu máli og muni valda því að strax á næsta ári verði hægt að bjóða út samgönguverkefni fyrir meira en 30 milljarða kr. Við getum séð hvaða máli það skiptir upp á hagvaxtarauka og alla starfsemi hér.

Rétt að lokum. Við höfum oft rætt um orkunýtingaráform og mikilvægi þeirra í hagvaxtarbatanum og endurreisnarstarfinu öllu. Ég hef um árabil verið talsmaður þess að orkunýting suður með sjó fari á fullt og við náum þeim árangri að álverið í Helguvík rísi. Ég held að það mundi skipta miklu máli hvað varðar allan hagvaxtarbata. Málið er í samkomulagsferli á milli HS Orku og Orkuveitunnar annars vegar og Norðuráls hins vegar. Það er engin pólitísk fyrirstaða, þar er það statt. Ég trúi því og treysti og heiti á þessa aðila að ná saman um orkuverð þannig að verkefnið geti gengið fram af fullum krafti. Þar erum við að tala um 10.000 störf á framkvæmdatíma og 2.000 varanleg störf, bara við þetta eina verkefni sem er langstærsta verkefnið sem er við það að detta af hugmyndastiginu yfir á framkvæmdastig og í rauninni komið á framkvæmdastig fyrir allnokkru. Það er búið að reisa grindur, útlínur kerskála o.fl. Ég held að ef okkur tækist að koma ýmsum orkunýtingaráformum, ekki bara þessu heldur gagnaveri o.fl., orkunýtingaráformum á Norðurlandi á Þeistareykjum o.fl., þá mundi okkur miða enn þá hraðar. Það hefur náðst góður árangur í ríkisfjármálum og efnahagsmálum en það hefur hægt á batanum. Stoppið í orkunýtingaráformum sem ég trúi og treysti að muni ganga fram á allra næstu vikum og mánuðum miðað við þær upplýsingar sem ég hef. Við þingmenn kjördæmisins erum í góðu sambandi við þá sem halda utan um verkefnið. Helguvík mundi færa okkur mikinn hagvaxtarbata, frestun framkvæmdanna hefur hægt á batanum og innkomu erlendra fjárfestinga upp á háar upphæðir en það sér vonandi fyrir endann á því núna.

Formaður menntamálanefndar nefndi áðan kvikmyndagerðina og tillögurnar sem eru í nefndaráliti um að bæta kvikmyndagerðinni að einhverju leyti þau alvarlegu mistök sem áttu sér stað í fyrra að mínu mati og margra annarra. Þau hjuggu nærri þessari viðkvæmu grein sem er og var í miklum uppgangi. Ég tel að við þurfum að leita leiða til að bæta kvikmyndagerðinni þetta upp enda höfum við séð það í nýlegri skýrslu á þeirra vegum að hver króna sem er sett í kvikmyndagerðina skilar sér allt að fimmfalt til baka. 500 millj. kr. niðurskurður í framlögum til kvikmyndagerðar leiðir af sér að 3 milljarðar kr. af erlendum fjármunum skila sér hugsanlega ekki inn í landið fyrir utan þá miklu grósku sem er í greininni. Þetta er einhver arðbærasta fjárfesting sem hægt er að ráðast í og vonandi næst að bæta þeim að einhverju leyti tjónið og mistökin sem áttu sér stað í fyrra þegar greinin var tekin niður um tugi prósenta, langt umfram hagræðingarkröfurnar eða nokkrar aðrar greinar. Það var dapurlegt að svo skyldi fara og vonandi getum við bætt þeim tjónið að einhverju leyti.