139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:59]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nú er það svo að fjárlagafrumvarp er eina stjórnarfrumvarpið sem fer beint inn í þingið frá ríkisstjórn. Öll önnur stjórnarfrumvörp eru samþykkt í ríkisstjórn og fara þaðan til þingflokka stjórnarflokkanna og koma hingað til þings ef og þegar þingflokkar stjórnarflokkanna hafa samþykkt þau. Þessar tillögur voru aldrei kynntar í þingflokki Samfylkingar enda ef þær hefðu verið lagðar þar fyrir til samþykktar eða synjunar og við verið búin að samþykkja tillögurnar hefðum við að sjálfsögðu ekki verið í nokkurri pólitískri stöðu til að fara gegn þeim. Ég talaði gegn þeim frá fyrsta degi á ýmsum fundum sem ég fór á. Margir fundir voru haldnir í mínu kjördæmi út af þessum tillögum af því að fólki brá heiftarlega. Annars vegar vó þetta að starfsöryggi fjölda fólks og hins vegar að því sem fólk telur grundvallaröryggi og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Nei, þessar tillögur voru ekki kynntar í þingflokki mínum, þess vegna komu þær okkur á óvart.

Ég nefndi áðan að svo róttækar kerfisbreytingar í viðkvæmu kerfi, hvort sem um er að ræða menntakerfi eða heilbrigðisþjónustu, geta ekki átt sér stað í gegnum fjárlagagerð á örfáum vikum. Þær þurfa að eiga sér faglegan, ítarlegan aðdraganda þar sem unnið er með sveitarstjórnarmönnum, þingmönnum, heimafólki og öllum öðrum sem koma að þessu þannig að það sé bærileg sátt um útfærsluna og breytingarnar á starfseminni.

Ég held að það hafi náðst ásættanleg niðurstaða í endurmatinu sem heilbrigðisráðuneytið fór í eftir að tillögurnar komu fram þannig að flestir geti gengið sæmilega sáttir frá þessu eins og staðan er núna.