139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[19:01]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hreinskilin svör og átta mig á því eins og hv. þingmaður segir að þetta fjárlagafrumvarp hafi ekki verið kynnt fyrir þingflokkunum áður en það var lagt fram í þinginu. Ég er gríðarlega hugsi yfir þessu. Þetta hefur reyndar komið fram hjá mörgum öðrum hv. þingmönnum. Ég velti fyrir mér þegar menn kynna öll önnur frumvörp en fjárlagafrumvarpið fyrir þingflokkunum, sem er stefnumark og stefnuplagg stjórnvalda á hverjum tíma: Hvernig má þetta gerast og hvernig getur það gerst?

Það staðfestir fyrir mér enn og aftur vanhæfi núverandi ríkisstjórnar að kynna ekki fjárlögin fyrir þingflokkunum til þess að fá þau samþykkt heldur henda þeim fram með þessum hætti og sýna starfsmönnum stofnana og notendum þjónustunnar slíka framkomu og virðingarleysi með öllum þeim harmkvælum og erfiðleikum sem hafa fylgt því og óöryggi í samfélaginu. (Gripið fram í.) Mér finnst alveg hreint með ólíkindum, virðulegi forseti, að hæstv. ríkisstjórn virði þingið ekki það mikið eftir allt sem á undan er gengið að kynna ekki einu sinni fjárlagafrumvarpið fyrir þingflokkunum. Þetta er með því dapurlegasta sem ég hef heyrt um hæstv. ríkisstjórn og hef ég nú heyrt margt slæmt um hana og upplifað. Mér finnst þetta algjörlega forkastanleg vinnubrögð. Þau sýna mér enn og aftur og staðfesta hve vanhæf ríkisstjórnin er.

Ég vil spyrja hv. þingmann sérstaklega hvort hann geti tekið undir með mér að það hvernig tillögurnar í heilbrigðismálum voru kynntar í upphafi og unnar sé algjört virðingarleysi við starfsfólk stofnananna og notendur þjónustunnar, hvort hann geti tekið undir með mér að þetta sé algjört virðingarleysi af hálfu stjórnvalda.