139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[19:07]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Bara til að byrja á síðustu spurningunni: Jú, jú, ég held að það gefi augaleið að þessir tveir sérfræðingar verði með aðsetur og starfsemi sína á svæðinu. Annað væri ankannalegt og mundi ekki skila þeim árangri sem lagt er upp með af því að ákvörðunin var að sjálfsögðu ánægjuleg. Það má ekki vanmeta mikilvægi þess að tveir öflugir sérfræðingar vinni um missiraskeið við að kortleggja hvernig megi styrkja námsframboð á þessu svæði. Það kemur ekki bara til út af því að þarna sé um að ræða meira atvinnuleysi en annars staðar á landinu, sem útskýrist að verulegu leyti af því að brottför varnarliðsins skildi stóran hluta af samfélaginu eftir í uppnámi, heldur hefur menntunarstig þarna verið lægra sem skýrist af ýmsum þáttum sem við höfum ekki tíma til að greina hér eða höfum kannski ekki gögn í höndunum um. Það skiptir því miklu máli að einbeita sér að því.

Hvað varðar orkuframkvæmdirnar tek ég undir það að orkunýting á þessu svæði á Reykjanesskaganum skiptir gífurlegu máli fyrir allt atvinnulíf í landinu og alla mannvirkjagerð eins og hún leggur sig af því að öflugar framkvæmdir þar gefa meira svigrúm til eftirspurnar eftir fólki í þessum geira annars staðar á landinu o.s.frv. Það skiptir mjög miklu máli.

Hvað varðar Keili veit ég ekki hvað tekur marga daga að útfæra samkomulag eða klára samninginn. Við skildum við málið fyrir tveimur klukkutímum í höndum hæstv. menntamálaráðherra og skólameistarans Hjálmars Árnasonar sem voru bæði á fundinum. Fundurinn var sem sagt haldinn með þeim báðum og ég held að það hafi skipt sköpum til að ná utan um málið og leiða það til lykta. Ég ætla ekki að svara fyrir hvort þau klári það á næstu 24 tímunum eða þurfi fleiri daga. Ég mun að sjálfsögðu fylgjast með því dag frá degi (Forseti hringir.) en er ekki alveg með það á takteinum hve marga daga það tekur.