139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[19:11]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er mikil óvissa í kortunum þegar litið er til næstu mánaða í efnahagsmálum hér eins og í efnahagsmálum nánast allra þjóða veraldar, kannski með einstaka undantekningum eins og Noregi. Mikil óvissa er uppi en um leið vinnur á móti henni að í mörgum löndum, til að mynda okkar, hefur verið meiri bati og hraðari en margir gerðu ráð fyrir fyrir tveimur árum t.d. Það hefur gengið hraðar og betur að ná jafnvægi aftur í ríkisfjármálum og efnahagslífinu almennt.

Það sem getur styrkt forsendurnar og breytt þeim til hins betra og kannski meira í átt til upphaflegu spárinnar upp á 3,5% hagvöxt, sem menn hafa verið að færa niður í 2,5% og jafnvel niður í 1% eins og Íslandsbanki í gær, er að saman gangi með okkur og þeim sem hér eru nánast komnir á fleygiferð við orkunýtingu. Ég nefndi áðan að þessa dagana væri undir verkefnastjórn Runólfs Ágústssonar verið að leita allra leiða til að ná samningum á milli HS Orku og Norðuráls annars vegar og Orkuveitu Reykjavíkur og Norðuráls hins vegar þannig að þær framkvæmdir gætu farið á fullan skrið á næstu vikum. Ef það gengur ekki verður það náttúrlega mikið áfall og mikil vonbrigði. En bara ef álversframkvæmdir í Helguvík færu af stað mundi það sjálfsagt skila okkur rúmlega 1% í hagvaxtarauka.

Það sem skýrir t.d. að ASÍ og Íslandsbanki drógu niður hagvaxtartölur sínar var að þeir voru eiginlega búnir að afskrifa það að framkvæmdirnar í Helguvík færu af stað fyrr en á þarnæsta ári. Ég held því að það mundi styrkja mjög þessar forsendur og bæta útlitið verulega.