139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[20:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir andsvarið. Ræðum fyrst sameiningu háskóla. Við rekum nú nokkuð marga háskóla í litlu landi og það hefur komið fram á fundum fjárlaganefndar eins og hv. þingmanni er vel kunnugt um. Þar benti rektor Háskóla Íslands t.d. á að ef Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík mundu sameinast, spöruðust 600–700 millj. kr.

Ég tel, virðulegi forseti, og það kemur mjög skýrt fram í meirihlutaáliti og minnihlutaálitum frá hv. menntamálanefnd inn í fjárlaganefndina, að menn verði núna að skoða frekari sameiningar. Í fjárlögum fyrir árið 2011 fara 150 millj. í þekkingarnet og samstarfsnet á milli háskólanna. Einnig er reiknað með því árið 2012. Það eru samtals 300 millj. kr. til að auka samstarfið. Gott og vel. En ég held að það sé mikilvægt að menn skoði þessa stóru málaflokka. Við köllum eftir stefnubreytingu eða ákveðinni stefnu, að menn spyrji: Hvernig viljum við hafa þetta í framtíðinni?

Við megum ekki gleyma því að gangi niðurskurðurinn fyrir árið 2011 eftir, eigum við samt eftir upp undir 40 milljarða gat af því að það mun þurfa að auka í milli 2. og 3. umr. Við eigum eftir að skera meira niður. Það er mikilvægt að við horfumst í augu við að það gangi kannski ekki að fara í flatari niðurskurð. Þess vegna er mikilvægt að menn ræði hlutina eins og þeir eru. Ég hef ekki mótaðar tillögur um hvaða háskóla sé skynsamlegt að sameina. Ég tel bara mikilvægt að hv. menntamálanefnd fari yfir það. Þar virðist nú vera nokkuð góð samstaða og a.m.k. samhljómur um að skoða þurfi þessa hluti mjög alvarlega til að ekki sé vegið svo hart að innviðum menntakerfisins að það (Forseti hringir.) gjaldi fyrir. Við þurfum að taka efnislega og upplýsta umræðu um þetta.