139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[22:46]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða og málefnalega ræðu sem ég get að mörgu leyti tekið undir. Mig langar hins að spyrja hv. þingmann um eitt. Hann kom inn á það að við sjálfstæðismenn reyndum alltaf að lækka skatta, hvort sem það væri góðæri, uppsveifla eða niðursveifla. Ég vil minna hv. þingmann á að þegar skattar voru lækkaðir þá hækkuðu skatttekjur. Hæstv. forsætisráðherra sem þá var í stjórnarandstöðu hélt því fram að skattalækkun væri skattahækkun vegna þess að tekjurnar hefðu aukist.

Ég hef verulegar áhyggjur af því þegar hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir bandorminum sínum um daginn þá talaði hann um að þetta væru smávægilegar breytingar til viðbótar, þetta væri bara smotterí. Breytingarnar sem eru boðaðar rýra ráðstöfunartekjur heimilanna um tæpa 9 milljarða, plús það að lán heimilanna hækka um 2,4 milljarða. Hefur hv. þingmaður (Forseti hringir.) ekki áhyggjur af því að við séum komin út á ystu nöf í skattahækkunum?