139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[22:51]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni hans skörulegu ræðu sem ég get í öllum meginatriðum tekið undir og verið sammála. Ég held við deilum skoðunum um margt í þeim efnum sem hann setti fram. Ég vil gera sérstaklega að umtalsefni hér þau sjónarmið hv. þingmanns þar sem hann hefur áhyggjur af of hægum og litlum hagvexti. Við erum sammála um að 4% hagvöxt þarf til að koma hlutunum og hjólunum í gang. Við höfum atvinnuvegafjárfestingu í sögulegu lágmarki.

Hann nefndi áðan að hann skildi ekki hvernig væri hægt að lækka skatta. Það eru tvær leiðir til þess; annars vegar að lækka prósentuna eða, sem ég trúi að við viljum báðir fara, stækka skattagrunninn, stækka kökuna. Þá er þetta spurningin um að leita leiða sem eru færar í því.

Ég minni á í því sambandi efnahagstillögur sjálfstæðismanna sem við lögðum fram í þriðja sinn núna í nóvember. Þar er fullt af þáttum sem ég vil gjarnan heyra álit hv. þingmanns á; efla atvinnulífið, endurheimta störfin, búa til störf í litlum og meðalstórum fyrirtækjum, veiða meira, nýta orkulindirnar, einfalda skattkerfið og beita hvötum. Ég treysti því og hef trú á því að hv. þingmaður hafi farið yfir tillögurnar og vildi gjarnan heyra skoðanir hans á (Forseti hringir.) því sem hér stendur.