139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[22:55]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek þessu bónorði hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar og er að sjálfsögðu reiðubúinn að hefja samvinnu í þessa veru. Það er mikilvægt að beita skattkerfinu af sæmilegu viti og til uppbyggingar á þeim tímum sem nú blasa við. Einmitt núna þarf að hvetja fyrirtæki til dáða með margvíslegum ráðum. Það er hægt að gera það í gegnum skattkerfið. Það er hægt að fjölga ýmiss konar nýsköpunarfyrirtækjum með því að ívilna þeim í skattalegu tilliti eins og kerfið kemst oft að orði. Það er hægt að ívilna öðrum fyrirtækjum. Það er ekki sjálfgefið eins og ég gat um hér í upphafi að við séum alltaf að ívilna aðkomumönnum, svo ég grípi nú til ágætrar akureysku, og séum aðeins góð við fyrirtæki sem koma að utan. (Forseti hringir.) Við eigum líka að vera góð við fyrirtæki sem eru hér heima fyrir.