139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[23:02]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að leiðrétta hv. þm. Ásmund Einar Daðason varðandi málflutning minn áðan. Ég sagði að ég teldi að það ætti ekki að beita niðurskurðarhnífnum á heilbrigðisstofnanir úti á landi árið 2012 umfram almennan niðurskurði í málaflokknum á þeim tíma.

Hvað varðar heilbrigðisstofnanir sem nefndar hafa verið á Sauðárkróki og sambærilega stofnun á Húsavík, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, þá tel ég þær vera komnar út að ystu mörkum. Ég vil hins vegar ekki standa í vegi fyrir eðlilegum breytingum á þessum stofnunum í takti við tímann, í takti við breyttar samgöngur og í takti við bættar samgöngur. Auðvitað eigum við á hverjum tíma að beita stofnanir eðlilegu aðhaldi og sníða þær að aðstæðum. Ég nefni sem dæmi að það er ekki sjálfgefið að það sé sýslumaður við báða enda Bolungarvíkurganga. Göngin hljóta að hafa það í för með sér að sýslumaður verði tekinn af öðru hvorum megin. Það sama gildir um heilbrigðisstofnanir. En við breytum ekki landakortinu og við breytum ekki veðurlaginu. Þess vegna þurfum við (Forseti hringir.) að standa vörð um umdæmissjúkrahúsin og lyflæknisdeildirnar (Forseti hringir.) hringinn í kringum landið. Það varðar mannréttindi.