139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[23:04]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég hef reynt að afla mér upplýsinga um það hvað niðurskurðurinn muni þýða fyrir þessar heilbrigðisstofnanir. Ég hygg að við munum skoða það betur milli 2. og 3. umr. þar sem stofnanirnar hafa ekki enn náð að skila inn álitum um niðurskurðinn eða komið fyrir nefndina. Ég hef til að mynda haft samband við stofnunina á Sauðárkróki sem telur að töluverðar stefnubreytingar muni felast í þessum 12% niðurskurði. Ljósmæðraþjónusta sem þegar var skert á síðast ári muni verða skert meira. Stöðugildum mun fækka úr einu og hálfu í eitt stöðugildi. Það mun valda því m.a. að allur sónar flyst til Reykjavíkur eða Akureyrar og ekki verði hægt að finna ljósmæðraþjónustu frá Sauðárkróki yfir á Blönduós svo dæmi sé tekið. Getum við ekki verið sammála um að þetta sé eitt af því sem við þurfum að skoða betur á milli umræðna? Hugsanlega er þetta eitthvað sem þurfi að endurskoða fyrir 3. umr. fjárlaga.