139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[23:47]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir ágæta ræðu. Hún var reyndar svo ágæt að ég hefði jafnvel getað flutt hana sjálfur að ýmsu leyti og velti fyrir mér hvort hann hafi haft álit 2. minni hluta til hliðsjónar þegar samdi ræðuna.

Það sem okkur greinir hins vegar á er hvernig eigi að fara með boðaðan niðurskurð í heilbrigðismálum. Hv. þingmaður lýsti því yfir að hann væri alfarið á móti þeim tillögum sem komu fram í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011. Hins vegar skil ég hann þannig að hann sé reiðubúinn að skera niður hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga og Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks um 12–13% á næsta ári, árinu 2011. Síðan sagði hv. þingmaður að hann vonaðist til að til niðurskurðarins á árinu 2012 kæmi ekki. Þá spyr ég hv. þingmann: Af hverju leggst hann ekki á sveif með okkur sem viljum stöðva þessa vegferð strax í fæðingu og boða til umræðu og úttektar á kerfinu áður en við förum í grundvallarbreytingar á því? Ég mun leggja fram þær breytingar að við færum í flatan niðurskurð, heilbrigðisstofnanir út um allt land eru viðbúnar því að það yrði flatur niðurskurður. Ég óttast að ef við förum af stað verði ekki snúið til baka. Ég tala ekki um ef niðurskurðurinn er boðaður fyrir árið 2012. Hvað ætla menn að gera árið 2013? Þá verður ekki aftur snúið.

Mig langar til að spyrja þingmanninn: Er hann reiðubúinn að stöðva förina strax og við ræðum málið og ígrundum vegferðina?