139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[23:57]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst það sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fjallaði um í lokin varðandi 5% niðurskurðinn. Ég vona að ég sé ekkert að misskilja. Ég hef lesið það þannig að heildarniðurskurðurinn er áfram 5% eins og hann var settur fram í römmunum og nú þekkjum við það vegna þess að við höfum setið saman í ríkisstjórn hvernig rammar eru settir niður að sumri og síðan er málið klárað. Fjárlagafrumvarpið fer síðan í prentuppsetningu og prentun og allt það. Vafalaust hefur það þarna verið búið. Ramminn hefur verið 5% sem settur var. Það sem kom á óvart var að 86% niðurskurðurinn er allur settur á landsbyggðina og það var þá sem menn risu upp og sögðu: Ekki meir, ekki meir, hingað og ekki lengra. Það er þess vegna sem þessi breyting er sem ég sagði frá áðan og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson efast um. Það kom fram á fundi heilbrigðisnefndar, frá fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins, að 1.200 millj. kr. væri varanlega tekið frá þessum niðurskurði. Við það verður staðið og gengið eftir.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þau orð sem hann hafði um mína ræðu. Ég vil aðeins minnast á það vegna þess að ég setti mig eftir að ég varð formaður iðnaðarnefndar og var beðinn um að koma á fund suður í Reykjanesbæ um Helguvík og atvinnuuppbyggingu þar. Ég setti mig vel inn í það. Ég var þar á fundi með hæstv. fjármálaráðherra sem sagði skýrt og skorinort: Hættum þessum umkenningaleik og förum í þessar framkvæmdir. Þar var talað um álver í Helguvík sem var búið að semja um áður en þessir ríkisstjórnarflokkar komu að völdum. Það var umsamið og átti að ganga eftir og á að ganga eftir. Í þessari kreppu og efnahagsþrengingum hefur þetta tafist, vafalaust einhver önnur atriði með. Þess vegna ber ég þá von í brjósti að þetta fari á fulla ferð núna. En núna er ekki hægt að kenna ríkisstjórn eða ríkisstjórnarflokkum um þetta. Nú er þetta einfaldlega samningar milli kaupanda orku og sölu orku. Vonandi ná þeir fram. En ég ítreka það sem hv. þingmaður tók undir í minni ræðu: (Forseti hringir.) Ekkert annað en hagvöxtur og aftur hagvöxtur verður það sem vinnur okkur út úr kreppunni.