139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[23:59]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni. Ef það er svo að allur 80% niðurskurðurinn hafi átt að bitna á landsbyggðinni þá er það rétt því Hafnarfjörður tilheyrir landsbyggðinni. Stór hluti og stærsti hluti niðurskurðarins innan heilbrigðisstofnana var m.a. á St. Jósefsspítala. Sá niðurskurður stendur enn þá. Það breyttist ekkert á milli umræðna af því að stundum er Hafnarfjörður á landsbyggðinni og stundum tilheyrir hann suðvesturhorninu og þarf að lúta þeim reglum en það er önnur saga. Ég kem að St. Jósefsspítala á eftir.

Ég sit enn þá eftir með þá hugsun að ekki hafi verið unnið opið og gegnsætt með þessar tölur innan ríkisstjórnar. Ef miðað var við 5% niðurskurð í heilbrigðismálum þá er engu að síður stóra myndin sú að heilbrigðisráðherra á að geta þess. Alla vega var það þannig þegar við sátum í ríkisstjórn og í þeim ríkisstjórnum sem ég sat áður að stóru rammarnir voru alltaf kynntir í ríkisstjórninni. Það var sérstaklega dregið fram ef eitthvað var pólitískt viðkvæmt en það hefur greinilega ekki verið gert. (Forseti hringir.) Eða voru fyrirætlanir heilbrigðisráðherra aðrar inni á ríkisstjórnarfundum en þegar hann fór eftir þeim þegar út var komið?