139. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[00:01]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Það er gott að sjá að til eru kröftugir þingmenn í stjórnarliðinu sem hafa trú á því að atvinnulífið sé sá þáttur efnahagslífsins sem muni draga okkur áfram og því sé rétt að stuðla að því að verkefni þar fái framgang.

Það vakti athygli mína að hv. þingmaður sagði að eyða yrði óvissunni í sjávarútvegi. Þetta þótti mér mjög athyglisvert og mér þætti vænt um ef hv. þingmaður gæti upplýst okkur aðeins um það hvernig það verður gert í ljósi stefnu ríkisstjórnarflokkanna. Með hvaða hætti mun hv. þingmaður beita sér fyrir því að óvissu verði eytt í sjávarútvegi? Að mínu mati er það einmitt stefna ríkisstjórnarflokkanna sem hefur skapað þá óvissu sem þar ríkir, bæði það að kasta fram hugmyndum um fyrningarleiðina svokölluðu, setja málin svo í nefnd þar sem ákveðin lending náðist sem vikið var frá strax daginn eftir, meðal annars af hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur.

Í öðru lagi langar mig að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns, sem er bjartsýnn maður, og það er vel, sem spáir meiri hagvexti en aðrir aðilar sem vitnað hefur verið til: Hver er hagvaxtarspá Kristjáns Möllers? Bara til að upplýsa okkur og skrá það á spjöld sögunnar og sjá svo til hver niðurstaðan verður.