139. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[01:34]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru mjög málefnalegar umræður hjá okkur.

Ég vil segja um þetta að það er alveg rétt að hægt er að finna skattstofna sem ekki hafa verið nýttir og munu ekki leiða til bjögunar í hagkerfinu og því ekki til þeirra áhrifa sem ég talaði um áðan. Við leggjum t.d. til skatt í efnahagstillögum okkar á bankakerfið sem ég tel að leiði ekki til þessara óæskilegu áhrifa heldur til jákvæðra áhrifa vegna þess að áhrifin mundu raunverulega hrekja þær ábyrgðir sem ríkið er með í burtu og minnka áhættuna sem ríkið býr við, jafnframt sem bankarnir fengju þá ekki lengur niðurgreitt fjármagn frá ríkinu heldur þyrftu að borga eitthvert markaðsverð fyrir það.

Hvað varðar skattlagningu á útflæði þá er gallinn á því sá að tvö verð myndast á gjaldmiðlinum. Tvö verð á gjaldmiðli leiða alltaf á endanum til einhvers konar bjögunar og óæskilegra áhrifa sem getur verið erfitt að sjá fyrir. Við sáum t.d. hvernig var á haftaárunum þegar komnar voru margar tegundir af gjaldeyri, það var bátagjaldeyrir, innflutningsgjaldeyrir og annað slíkt, þá leiddi það fljótt til gríðarlegrar spillingar þar sem menn fengu innflutningsleyfi til þess að komast í rétta tegund af gjaldeyri. Ég mæli ekki með skattlagningu á útflæði en segi um leið að ég er tilbúinn til þess að skoða það. Ég hef bara ekki séð kostina við það enn þá. (Forseti hringir.)