139. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[02:10]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ánægður með að hv. þingmaður fór í ferð til Brussel og hitti Olli Rehn og er enn með heilbrigðar skoðanir á þessum málaflokki. Það einkennir marga sem fara í þannig leiðangra og er boðið vín og matur og gist á fínum hótelum að þeir koma til baka algjörlega endurnærðir.

Varðandi þetta sem hún kemur inn á þá er það háalvarlegt mál. Við horfum fram á það núna að við erum að skera gríðarlega niður. Við erum að skera gríðarlega niður í heilbrigðismálum, velferðarmálum og öðru slíku. Þetta eru engar smáupphæðir í raun og veru þegar talað er um tugi milljóna eða hundruð milljóna sem fara í verkefni eins og þetta. Sérstaklega í ljósi þess að meiri hluti þjóðarinnar er algjörlega andsnúinn því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Það ætti að liggja nokkuð ljóst fyrir á skömmum tíma, án þessa gríðarlega kostnaðar við alla aðlögunina og annað, að fá það nokkuð á hreint hvort Íslendingar fá undanþágur í helstu grundvallarhagsmunum sínum.

Ég hef sagt að þetta er ekki forgangsröðunin sem við eigum að vera með á tímum sem þessum. Það er ljóst að fjármagni væri betur varið í velferðarkerfinu, heilbrigðiskerfinu eða menntakerfinu. Ég mun fylgja því eftir, breytingartillögum sem liggja fyrir, ég mun ekki greiða þeim atkvæði mitt. Það liggur alveg ljóst fyrir.