139. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[02:34]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef hlýtt á hluta ræðu hv. þingmanns. Lokaorð hennar eru má segja niðurstaða þess sem fram kom í ræðu hennar. Þetta eru talsverð tíðindi að fjárlagafrumvarpið, sem hófst þannig að það virtist vera munaðarlaust af hálfu stjórnarliða, er komið í þá stöðu að einn stjórnarliða treystir sér ekki til að styðja það eins og það liggur fyrir.

Spurningin sem mig langaði að spyrja hv. þingmann er einfaldlega þessi: Hafa þessi mál verið rædd á flokkslegum vettvangi, t.d. á vettvangi Vinstri grænna ellegar milli stjórnarflokkanna? Er líklegt að hennar mati að þær miklu breytingar sem hún kallaði eftir á fjárlagafrumvarpinu verði gerðar milli 2. og 3. umr.?

Við skulum gera okkur grein fyrir því hver staða málsins er. Það er í raun og veru búið að fara efnislega yfir flesta þætti fjárlagafrumvarpsins. Eftir morgundaginn þegar búið verður að afgreiða málið liggur stefnan í meginatriðum fyrir um niðurstöðu fjárlaganna nema ríkisstjórnin taki ákvörðun að taka 180 gráðu beygju á stefnu sinni til þess að koma til móts við hv. þingmann.

Mér leikur nokkur forvitni á að vita hvort hv. þingmaður boði okkur að það sé hljómgrunnur fyrir því innan flokks hennar eða í ríkisstjórnarflokkunum að gera þær miklu breytingar sem hún kallaði eftir í ræðu sinni.