139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:10]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þegar ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna tók við var halli ríkisins nærri 200 milljarðar kr. Nú tæpum tveimur árum síðar erum við í allt annarri stöðu. Við höfum náð undraverðum árangri í ríkisfjármálunum, enda er sjálfbærni ríkissjóðs lykilatriðið í viðspyrnu efnahagslífsins. Við hefðum þurft að ná slíku, hvort sem við værum í samstarfi við AGS eða ekki, en hins vegar eru verkefnin miklu auðveldari í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Það þarf hugrekki til að hækka skatta eða skera niður, (Gripið fram í: Ne-ei.) enda eru slíkar ákvarðanir ekki fallnar til vinsælda. Lykilatriðið er að ríkið borgar núna 75 milljarða kr. í vexti af skuldum sínum og þeirri tölu þurfum við að ná niður. Við erum á réttri leið. Það verður jákvæður frumjöfnuður hér á næsta ári og ríkisstjórninni er að takast enn eitt ætlunarverk sitt. (Gripið fram í: Nohh.) [Kliður í þingsal.]