139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:14]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta er líklega erfiðasta fjárlagafrumvarp sem hér hefur verið til meðferðar. Það er rétt að vekja athygli á því að eins og það er í dag er það innan efnahagsrammans sem kynntur var í júní árið 2009 og þykir mér það sýna að stjórnarmeirihlutinn er staðráðinn í að ná tökum á efnahagslífinu og skulum við rétt vona að það gangi eftir. Ég vil sérstaklega lýsa ánægju minni með að formaður fjárlaganefndar hyggst halda áfram að bæta alla vinnu við fjárlagagerðina og strax í upphafi næsta árs kalla saman tvær nefndir, annars vegar nefnd til að hætta hinum illræmdu, sem ég kalla, safnliðum sem hér eru í fjárlagafrumvarpinu og hins vegar við allan undirbúning fjárlagafrumvarpsins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)