139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:22]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við atkvæðagreiðslu um A-hluta fjárlagafrumvarpsins, tekjuhlutann, sitjum við sjálfstæðismenn hjá, ekki vegna þess að ekki sé hægt að styðja ýmsa þá skatta sem þar er fjallað um og reiknuð eru út áhrifin af heldur vegna þess að okkur er hvorki stætt á því að styðja né vera á móti kaflanum í heild sinni. Við sitjum hjá og lýsum ábyrgð á honum í heild sinni á hendur ríkisstjórninni en við afgreiðslu á bandorminum og þeim einstöku skattatillögum sem hér eru útreiknuð áhrif af munum við vera á móti. Það gildir líka um eignarskattana sem hér eru teknir upp að nýju af þessari ríkisstjórn meðan þeir eru alls staðar annars staðar á undanhaldi, kolefnisgjald, olíugjald, áfengisgjald, tóbaksgjald og hvaðeina annað sem hér er verið að kynna (Forseti hringir.) til sögunnar sem mun fara beint inn í vísitöluna hjá fólki og hækka hjá því lánin.