139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:27]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við greiðum atkvæði um tekjuhlið fjárlaganna. Þar hefur því miður ekki tekist nægjanlega vel til, ekki bara að mati okkar í stjórnarandstöðunni heldur allra greiningaraðila, enda sýnir það sig að sú stefna sem ríkisstjórnin hefur rekið með stöðugum skattahækkunum, allt of miklum álögum á atvinnulíf og heimili kemur einfaldlega mjög illa við okkur.

Ég vil minna hv. þingmenn á að þær skattahækkanir sem samþykktar voru af ríkisstjórninni í fyrra áttu á þessu ári að skila 56 milljörðum kr. í auknum tekjum. Staðreyndin er sú að tekjuaukinn er einungis 29 milljarðar kr. Það vantar 27 milljarða kr. þar upp á þannig að þetta módel og þessir útreikningar sem ríkisstjórnin gefur sér, að endalausar skattahækkanir muni skila sér í samsvarandi tekjum, ganga hreinlega ekki upp. Nú er mál að linni. Við þurfum að hefja samráð um nýja stefnu hvað þetta varðar. Samráð var boðað í haust en ég hef ekki verið boðaður (Forseti hringir.) á fund í tvo mánuði í þeim stýrihópi sem átti að hefja það.