139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:33]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Þar sem hér er fjallað um alla skatta í einu er ég hingað komin til að gera grein fyrir atkvæði mínu um erfðafjárskattinn, þá sérstaklega skatt á gjafafé. Ég hef í hyggju að leggja fram breytingartillögu milli 2. og 3. umr. hvað þetta varðar því að ég tel að í ljósi ástandsins í samfélaginu sé aldrei meiri þörf en akkúrat nú á því að styðja vel við hjálparsamtök, góðgerða- og líknarfélög. Þegar maður leitar í gögnum Alþingis rekst maður á ýmis góð mál, m.a. breytingartillögu frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, Jóhönnu Sigurðardóttur og Ögmundi Jónassyni um að ekki yrði lagður skattur á gjafafé úr dánarbúi til góðgerðafélaga, líknarfélaga og menningarstofnana sem stunda vísindastörf. Ég treysti því að þessir þingmenn muni styðja breytingartillögu mína.