139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:36]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vek máls á því að við erum í samfélagi sem þarf að endurreisa eftir hrun fjármálakerfisins og að mikilvægi menntunar og fræðslustarfsemi í landinu er aldrei meira en einmitt við aðstæður eins og núna. Við þurfum að leggja aukna áherslu á nýsköpun og fjárfestingar í atvinnulífinu og móðir allrar nýsköpunar er öflugt samfélag háskóla og framhaldsskóla. Ég vil því lýsa yfir ánægju með þær breytingar sem koma fram í tillögum fjárlaganefndar þar sem niðurskurður til framhaldsskóla er að einhverju leyti mildaður frá fjárlagafrumvarpinu og sömuleiðis niðurskurður til Háskóla Íslands. Betur má þó ef duga skal.

Ég vek sömuleiðis athygli á og hvet fjárlaganefnd til þess milli 2. og 3. umr. að skoða sérstaklega framlög til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Það liggur fyrir að hver króna sem sett er í kvikmyndagerð í landinu skilar sér tvöfalt til baka í formi framlaga úr erlendum kvikmyndasjóðum þannig að þetta er bæði atvinnuskapandi (Forseti hringir.) og auðgar menningu okkar.