139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:50]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það er vel að verið er að bæta 200 nemendaígildum til Háskóla Íslands en engu að síður þarf Háskóli Íslands að taka 1.200 nemendur inn í háskólann án þess að fá greitt fyrir. Að sjálfsögðu stendur þá háskólinn frammi fyrir því að gæðunum sé ógnað.

Leiðin sem við sjálfstæðismenn viljum fara varðandi háskóla og menntamálin almennt, rannsóknir og vísindi, er að efla menntakerfið í heild sinni, vísindakerfið og rannsóknirnar. Við teljum það rétta forgangsröðun. Af hverju? er þá spurt. Jú, af því að þá komumst við fyrr út úr kreppunni. Við viljum svo sannarlega læra af reynslu annarra þjóða, til að mynda Finna. Þeir komust fyrr út úr sinni kreppu með því að efla menntakerfið, rannsókna- og vísindasamfélagið. Ég tel að sú forgangsröðun hefði verið rétt.