139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:02]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við erum að greiða atkvæði um svokallaða safnliði. Ég vil láta í ljós óánægju mína með þau vinnubrögð sem viðhöfð eru. Ég hef setið hér frá árinu 2007 við afgreiðslu slíkra liða og ég vil láta enn frekar í ljós óánægju mína með það að þegar svokallaðar fagnefndir hafa tekið afstöðu til mála og sent inn til fjárlaganefndar með hvaða hætti þær vilja vinna verkið tekur fjárlaganefnd sig til, frú forseti, og lagfærir eftir því sem henni hentar best. Þetta eru óásættanleg vinnubrögð með öllu. Hvernig við úthlutum fjármunum ríkisins í þessa svokölluðu safnliði er með öllu óásættanlegt. Því fyrr sem tekin er ákvörðun um að breyta og ekki bara talað um að breyta, því betra. Það hefur verið talað um að (Forseti hringir.) breyta þessu síðan 2007. Það er tími til kominn að breyta. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)